Innherji

Vaxandi verð­tryggingar­mi­s­vægi gæti reynst „á­skorun“ fyrir fjár­mála­kerfið

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og formaður fjármálastöðugleikanefndar. Í yfirlýsingu nefndarinnar beinir hún meðal annars sjónum sínum að hratt vaxandi verðtryggingarmisvægi bankanna sem hefur margfaldast á skömmum tíma samtímis því að heimili og fyrirtæki flýja í verðtryggða fjármögnun. 
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og formaður fjármálastöðugleikanefndar. Í yfirlýsingu nefndarinnar beinir hún meðal annars sjónum sínum að hratt vaxandi verðtryggingarmisvægi bankanna sem hefur margfaldast á skömmum tíma samtímis því að heimili og fyrirtæki flýja í verðtryggða fjármögnun.  Vísir/Vilhelm

Þótt fjármálakerfið standi traustum fótum, sem birtist meðal annars í því að álagspróf sýna að það myndi standast „umtalsvert“ álag, þá gæti þrálát verðbólga samtímis minnkandi umsvifum í efnahagslífinu skapað áskoranir fyrir bankana, að mati fjármálastöðugleikanefndar. Hún sér ástæðu til að vara við hratt vaxandi verðtryggingarmisvægi sem gæti valdið erfiðleikum fyrir fjármálakerfið.

Í yfirlýsingu sem fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans birti í morgun var sem fyrr undirstrikað að eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka væri sterk, aðgengi að fjármögnun gott og fjármögnunarkostnaður þeirra á erlendum mörkuðum hefði lækkað.

Nefndin bendir að fasteignaverð sé hátt – það er upp um tæplega ellefu prósent á undanförnum tólf mánuðum – en segir að afleiðingar eldsumbrotanna á Reykjanesi og fólksflutningar til landsins hafi meðal annars átt þátt í hækkun þess undanfarin misseri. „Umsvif í byggingariðnaði eru enn nokkuð kröftug líkt og skýr merki eru um af vinnumarkaði og í vexti útlána til byggingageirans. Sterk eiginfjárstaða margra lántakenda veitir svigrúm til endurskipulagningar útlána ef þörf krefur,“ segir í yfirlýsingunni.

Álagspróf Seðlabanka Íslands á kerfislega mikilvæga banka gefa til kynna að þeir gætu staðist umtalsvert álag.

Fjármálastöðugleikanefndin undirstrikar, eins og hún hefur áður gert, að fáar vísbendingar séu um almennan greiðsluvanda heimila og fyrirtækja þrátt fyrir að mikil verðbólga og háir vextir reynist mörgum áskorun. Takmarkanir á skuldsetningu við fasteignakaup, launahækkanir og hátt atvinnustig eigi þar ríkan þátt í viðnámsþrótti heimila.

Nefndin sér hins vegar ástæðu til þess, sem ekki hefur áður komið fram í yfirlýsingu hennar, að sókn heimila og fyrirtækja í verðtryggð lán á kostnað óverðtryggðra hafi leitt til þess að verðtryggingarójöfnuður bankanna hefur vaxið, enda stærstur hluti fjármögnunar þeirra óverðtryggður. „Þetta gæti reynst áskorun fyrir fjármálakerfið,“ segir í yfirlýsingunni.

Heimild: Markaðsviðskipti Arion banka.

Innherji fjallaði um þessa þróun í fyrr í sumar þar sem fram kom að verðtryggingarskekkja stóru viðskiptabankanna, munurinn á verðtryggðum eignum og skuldum á efnahagsreikningi þeirra, hefði margfaldast á aðeins átján mánuðum. Verðtryggingarjöfnuður bankanna var þannig jákvæður um samtals 490 milljarða króna um mitt þetta ár, samkvæmt upplýsingum úr árshlutareikningum þeirra.

Núverandi verðtryggingarmisvægi hjá bönkunum hefur því aldrei verið meira – að minnsta kosti í krónum talið – og nærri nífaldast að umfangi á skömmum tíma.

Fyrr í vikunni tilkynnti Landsbankans um hækkun á vöxtum verðtryggðra lána og samhliða því að girða fyrir veitingu verðtryggðra íbúðalána með jöfnum greiðslum nema í tilfelli fyrstu kaupenda. Leiða má líkur að því að sú ákvörðun að draga úr framboði tiltekinna verðtryggðra lána sé meðal annars hugsuð sem mótvægi við hækkandi verðtryggingarmisvægi á efnahagsreikningi bankans. Of mikil skekkja á verðtryggðum eignum gagnvart verðtryggðum skuldum getur haft áhrif til hækkunar á þeirri eiginfjárkröfu sem Seðlabankinn gerir til bankanna.

Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefnd kemur einnig fram að ákveðið hafi verið að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5 prósentum. „Álagspróf Seðlabanka Íslands á kerfislega mikilvæga banka gefa til kynna að þeir gætu staðist umtalsvert álag. Ekki hefur dregið úr áhættu í fjármálakerfinu og telur nefndin því mikilvægt að fjármálafyrirtæki búi við sterka eiginfjárstöðu.“

Þá undirstrikar nefndin sem fyrr mikilvægi þess að unnið sé að auknu rekstraröryggi í greiðslumiðlun og hún muni beita sér fyrir aðgerðum sem miða að því að draga úr undirliggjandi rekstraráhættu. „Nokkuð hefur þegar áunnist en nefndin telur mikilvægt að lokið verði við samhæfingaráætlun fyrir fjármálamarkaði um snemmbær, samhæfð og skilvirk viðbrögð við rekstraratvikum,“ segir í yfirlýsingunni, og að lokum bætt við:

„Fjármálastöðugleikanefnd mun sem fyrr beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.“


Tengdar fréttir

Vonast til að stutt sé í vaxta­lækkanir og þær verði „nokkuð hraðar“

Skýr merki eru um að hátt vaxtastig sé farið að þrengja mjög að lántökum, einkum fyrirtækjum, og gangi verðbólgan niður næstu mánuði er útlit fyrir að raunvextirnir muni hækka verulega, segir bankastjóri Íslandsbanka. Hann brýnir peningastefnunefnd Seðlabankans til að vera framsýna í ákvörðunum sínum og telur að aðstæður séu að skapast til að hefja vaxtalækkunarferlið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×