Körfubolti

Þarf ekkert að taka afa bak við hlöðu og skjóta hann

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hlynur í leik með Stjörnunni á síðasta tímabili. Hann verður 43 ára 6.júlí á næsta ári.
Hlynur í leik með Stjörnunni á síðasta tímabili. Hann verður 43 ára 6.júlí á næsta ári. vísir/anton brink

Hlynur Bæringsson verður elsti leikmaðurinn í Bónusdeild karla í vetur. Hann gat ekki hugsað sér að hætta eftir síðasta vonbrigðatímabil.

Hlynur spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki árið 1997. Margir samherjar hans hjá Stjörnunni voru þá ekki fæddir. Stjarnan komst ekki í úrslitakeppnina á síðustu leiktíð en liðið hefur styrkt sig töluvert fyrir komandi átök og fengið inn nýjan þjálfara, Baldur Þór Ragnarsson.

„Skrokkurinn er ekki lengur alveg upp á tíu. Hingað til hef ég haldið áfram svona lengi því ég hef haft fullt í þetta að gera, þó ég segi alveg eins og er,“ segir Hlynur í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Svo hef ég haft rosalega gaman af þessu. En ástæðan fyrir því að ég held áfram í þessu núna, því þetta er orðið virkilega erfitt og ég get alveg viðurkennt það, er að eftir síðasta tímabil sem var erfitt og leiðinlegt þurfti ég að gera upp við mig hvort ég vildi hætta á þessum nótum eða halda áfram í góðu liði í einhverju minna hlutverki.“

Hlynur segir að mögulega verði hans hlutverk með Stjörnunni mjög lítið í vetur.

„Ég finn alveg að ég get ekki lengur spilað eins mikið, og það er ekkert leyndarmál. Ég er sko fjörutíu og tveggja ára sem er galið. Ef Baldur [Þór Ragnarsson] getur notað mig þá gerir hann það. Það þarf enga meðvirkni með það. Þetta á ekkert að vera svona hvað á að gera við afa móment. Það þarf ekkert að taka hann bakvið hlöðu og skjóta hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×