Erlent

Jafnaðar­menn báru nauman sigur úr býtum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Jafnaðarflokkurinn slapp með skrekkinn.
Jafnaðarflokkurinn slapp með skrekkinn. EPA

Jafnaðarmannaflokkur Olafs Scholzs Þýskalandskanslara vann nauman sigur á þjóðernissinnaða hægriflokknum Alternativ für Deutschland í ríkiskosningum Brandenborgar í Þýskalandi í dag.

Samkvæmt DW fengu jafnaðarmenn tæp 31 prósent atkvæða á móti rúmum 29 prósentum AfD. Báðir flokkarnir bættu þó við sig fylgi frá síðustu ríkiskosningum fyrir fimm árum síðan.

Jafnaðarflokkurinn heldur naumlega forystunni en hann og Alternativ für Deutschland höfðu mælst hnífjafnir fram að kosningum.

Jafnaðarflokkurinn hefur verið við völd í sambandslandinu Brandenborg frá sameiningu Þýskalands en Brandenborg var áður hluti af hinu austur-þýska alþýðulýðveldi.

Alternativ für Deutschland hefur þó sótt allverulega í sig veðrið undanfarið og urðu til að mynda stærsti flokkurinn á ríkisþingi Þýringalands þegar gengið var til kosninga þar í upphaf mánaðar og var það í fyrsta sinn í sögu flokksins sem hann er stærsti flokkur á ríkisþingi. Hann hlaut einnig tæplega fjörutíu sæti á ríkisþingi Saxlands og er næststærsti flokkurinn þar á eftir Kristilegum demókrötum.

Þrátt fyrir að hafa hafnað í öðru sæti að þessu sinni er oddviti Alternativ für Deutschland brattur. Guardian greinir frá því að hann hafi sagt á kosningafögnuði flokksins í Marquardt norðan af ríkishöfuðborginni Potsdam að hann hafi verið hinn raunverulegi sigurvegari kosninganna. Þeim hafi fallið þriðja hvert atkvæði í ríkinu í skaut „þrátt fyrir herferð rógburðar og ærumeiðinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×