Fótbolti

Liðsfélagi Arnórs með bitför eftir and­stæðing

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Milutin Osmajic virtist bíta Owen Beck í leik Preston og Blackburn í dag.
Milutin Osmajic virtist bíta Owen Beck í leik Preston og Blackburn í dag. Dave Howarth - CameraSport via Getty Images

Milutin Osmajic, liðsfélagi Stefáns Teits Þórðarsonar hjá Preston North End í ensku B-deildinni, gæti verið á leið í langt bann fyrir að bíta andstæðing sinn í leik liðsins gegn Blackburn Rovers í dag.

Preston og Blackburn gerðu markalaust jafntefli er liðin mættust í ensku B-deildinni í dag, í leik þar sem Stefán Teitur sat á bekknum allan tímann. Arnór Sigurðsson er leikmaður Blackburn, en hann var ekki í leikmannahópi liðsins í leik dagsins.

Owen Beck, sem leikur með Blacburn á láni frá Liverpool, var sendur af velli með beint rautt spjald á 89. mínútu í leik liðsins gegn Preston fyrir að ráðast að Duane Holmes, leikmanni Preston.

Í kjölfarið brutust út mikil læti og að þeim loknum reyndi Beck að útskýra fyrir dómaranum að hann hefði verið bitinn í látunum. Beck sakaði áðurnefndan Osmajic um verknaðinn og fékk Svartfellingurinn að lokum að líta gult spjald.

Í endursýningum í sjónvarpi, sem má sjá á X-færslunni hér fyrir ofan, má sjá þegar Osmajic virðist bíta Beck af miklu afli í bakið. 

„Owen er með stórt bitfar aftan á hálsinum og það er skammarlegt að dómarinn hafi ekki séð atvikið,“ sagði John Eustace, þjálfari Blackburn, í viðtali eftir leikinn.

Gera má ráð fyrir því að Osmajic eigi yfir höfði sér langt bann fyrir verknaðinn, en Luis Suarez, þá leikmaður Liverpool, fékk tíu leikja bann fyrir að bíta Branislav Ivanovic í leik gegn Chelsea árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×