Sport

„Mér fannst þetta mjög slakur leikur hjá okkur“

Andri Már Eggertsson skrifar
Pétur Pétursson, þjálfari Vals, var ekki sáttur með spilamennskuna
Pétur Pétursson, þjálfari Vals, var ekki sáttur með spilamennskuna Vísir/Anton Brink

Valur vann 2-0 sigur gegn FH á heimavelli. Þrátt fyrir sigur þá var Pétur Pétursson, þjálfari Vals, ekki ánægður með spilamennsku liðsins.

„Mér fannst þetta mjög slakur leikur hjá okkur, sérstaklega fyrri hálfleikurinn. FH liðið spilaði þennan leik mjög vel en mér fannst þetta ekki gott hjá okkur,“ sagði Pétur og útskýrði hvað hann var ósáttur með.

„Mér fannst ákefðin í liðinu léleg, sendingarnar voru lélegar og ég var ekki sáttur í hálfleik.“

Aðspurður hvort að skiptingin sem Pétur gerði í hálfleik þar sem Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir fór út af og Elísa Viðarsdóttir kom inn á hafi verið út af lélegri spilamennsku sagði Pétur að það hafi ekki verið einum leikmanni að kenna.

„Það var ekki við einn leikmann að sakast. Allt liðið var ekki í lagi.“

Forysta Vals var lengi aðeins eitt mark en Pétur var þó ekki stressaður yfir því að FH myndi ná jöfnunarmarki.

„Það fór ekkert um mig. FH fékk enginn færi held ég en ég var bara óánægður með spilamennskuna hjá mínu liði.“

En var þessi spilamennska áhyggjuefni fyrir framhaldið?

„Ég ætla rétt að vona að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessu. Við mætum Víkingi næst og við þurfum að eiga frábæran leik til þess að vinna þær,“ sagði Pétur Pétursson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×