Handbolti

Full­komin byrjun læri­sveina Arnórs heldur á­fram

Aron Guðmundsson skrifar
Arnór Þór er þjálfari þýska B-deildar liðsins Bergischer
Arnór Þór er þjálfari þýska B-deildar liðsins Bergischer mynd: bergischer

Lærisveinar Arnórs Þórs Gunnarssonar í þýska B-deildar liðinu Bergischer unnu í kvöld stórsigur á liði Bayer Dormagen og sáu til þess að fullkomin byrjun liðsins í deildinni heldur áfram. 

Leikurinn fór fram í Uni-Halle, heimavelli Bergischer og segja má að vinstri hornamaður heimamanna, Noah Bayer, hafi farið á kostum í leiknum en sá skoraði tólf af 44 mörkum Bergischer sem fór að lokum með níu marka sigur af hólmi 44-35. Tölur sem gefa til kynna að varnarleikur hafi ekki verið í fyrirrúmi hjá liðunum tveimur. 

Tjörvi Týr Gíslason gekk til liðs við Bergischer fyrir tímabilið og hann skoraði eitt marka Bergischer í kvöld. 

Bergischer er nýliði í B-deildinni eftir að liðið féll úr þýsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og gefur byrjun Bergischer á tímabilinu það til kynna að í þýsku B-deildinni ætli það ekki að dvelja yfir lengri tíma. 

Lærisveinar Arnórs Þórs hafa unnið fyrstu þrjá leiki sína í B-deildinni gegn Essen, HSC og nú Bayr Dormagen. Bergischer mætir næst liði Lubbecke þann 28.september næstkomandi á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×