Enski boltinn

Alisson tæpur fyrir leikinn gegn Bournemouth

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alisson í leiknum gegn AC Milan í Meistaradeild Evrópu sem Liverpool vann, 1-3.
Alisson í leiknum gegn AC Milan í Meistaradeild Evrópu sem Liverpool vann, 1-3. getty/Marco Luzzani

Ekki er víst að markvörður Liverpool, Alisson, geti spilað með liðinu þegar það fær Bournemouth í heimsókn í 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á morgun.

Alisson er tæpur aftan í læri og ekki er ljóst hvort hann verði klár í slaginn fyrir morgundaginn að sögn Arnes Slot, knattspyrnustjóra Liverpool.

Ef Alisson verður fjarri góðu gamni mun Írinn Caoimhín Kelleher standa á milli stanganna á Anfield á morgun. Kelleher lék 26 leiki fyrir Liverpool á síðasta tímabili.

Liverpool vann AC Milan, 1-3, í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn. Alisson var þá í marki Rauða hersins en samkvæmt Slot meiddist hann ekki í leiknum á San Siro. Meiðslin ágerðust hins vegar eftir leikinn.

Í aðdraganda leiksins gegn Milan kvartaði Alisson undan of miklu leikjaálagi í boltanum. Hann sagði að leikmennirnir væru aldrei spurðir álits, bara látnir spila meira og meira.

„Stundum spyr enginn leikmennina hvað þeim finnst um fleiri leiki. Kannski skiptir skoðun okkar ekki máli en allir vita hvað okkur finnst um fleiri leiki. Allir eru þreyttir á því,“ sagði Alisson.

Um síðustu helgi tapaði Liverpool sínum fyrsta leik undir stjórn Slots þegar Nottingham Forest kom í heimsókn á Anfield. Liverpool er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×