Lífið

Púsluðu sig inn í undan­úr­slit þrátt fyrir hremmingar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Þær Hrefna Guðlaugardóttir, Andrea Dan og Ágústa Dan eru fulltrúar Íslands á heimsmeistaramótinu í hraðpúsli. 
Þær Hrefna Guðlaugardóttir, Andrea Dan og Ágústa Dan eru fulltrúar Íslands á heimsmeistaramótinu í hraðpúsli.  aðsend

Þrír Íslendingar keppa á heimsmeistaramótinu í hraðpúsli sem fram fer á Spáni. Fulltrúar okkar hafa púslað sig inn í undanúrslit þrátt fyrir hremmingar. 

Á myndskeiðinu sem hefst í upphafi sjónvarpsfréttarinnar sést hversu þandar taugarnar eru á mótinu sem haldið er árlega af alþjóðlega púslsambandinu. Keppt er í einstaklings-, para- og liðakeppni og tóku fulltrúar okkar þátt í öllum flokkum.

„Það er gífurlegur fjöldi hérna og það er mikil stemning þegar fólk er að klára púslin sín. Það hafa verið mjög góðir tímar í keppnunum sem eru búnar og gríðarleg stemning. Já ég held að það hafi verið settir tveir bestu tímar frá upphafi í gær. Þannig þetta er búið að vera mjög mikið fjör.“ sögðu Ágústa Dan Árnadóttir og Hrefna Guðlaugardóttir.

Um þrjú þúsund taka þátt frá öllum heimshornum. Sá sem sló metið púslaði 500 bita púsl á 26 mínútum. Stelpurnar eru báðar komnar áfram í næstu umferð ásamt Andreu Dan sem keppir líka á mótinu. Ágústa lenti í 75 sæti og Hrefna í því 41 og flugu þær báðar áfram í næstu umferð.

„Og svo vorum við að koma út úr parakeppninni þar sem við lentum í tólfta sæti af 180 liðum og erum komnar áfram í næstu umferð.“

Stelpurnar voru í tólfta sæti í parakeppninni.aðsend

Undanúrslitin í einstaklingsflokki fara fram á laugardaginn og liðakeppnin á sunnudag.

„Í undanúrslitum og úrslitum þá verða ný púsl sem hafa ekki verið gefin út áður þannig enginn getur verið búinn að æfa sig í því sem að er að koma.“

Hafiði lent í einhverjum hremmingum? 

„Já það vantaði tvo bita í púslið mitt, glænýtt púsl sem ég opnaði og það vantaði bita. Ég eyddi svona mínútu í að leita að þeim en það kom ekki að sök. Þetta gekk allt upp.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.