Innlent

Óvissustig og við­varanir enn í gildi

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Appelsínugular og gular viðvaranir eru í gildi á landinu.
Appelsínugular og gular viðvaranir eru í gildi á landinu. Veðurstofa Íslands

Óvissustig almannavarna er í gildi i fyrir Norðurland og á Ströndum. Þar eru appelsínugular viðvaranir í gildi vegna hvassviðris og snjókomu til klukkan níu. Talsverð snjókoma og hálka er á fjallvegum, einkum austan til.

Það eru hálkublettir á Öxnadalsheiði og krap á Ljósavatnsskarði. Þá er snjóþekja á Mývatnsöræfum. 

Gular viðvaranir eru í gildi á Austurlandi og Miðhálendinu til miðnættis. 

Bændur hafa hafist handa við að koma fé af fjöllum. Upplýsingum um veðrið hefur einnig verið beint til ferðamanna sem eru hvattir til að aðlaga eða breyta ferðaáætlunum sínum eftir atvikum.

Samkvæmt athugasemd á vef Vegagerðarinnar er ekki útlit fyrir neitt ferðaveður á norðan- og norðaustanverðu landinu, sem og á miðhálendinu. Ekki er mælt með ferðalögum á þeim slóðum fyrr en hægir.

Horfur næsta sólahring samkvæmt Veðurstofu Íslands:

Norðan og norðvestan 10-18 m/s, en 15-23 á Suðausturlandi. Talsverð rigning eða slydda á Norður- og Austurlandi, en annars skýjað með köflum og þurrt að mestu. Dregur úr vindi vestanlands síðdegis og úrkomu norðanlands í kvöld.

Norðvestlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s og víða léttskýjað á morgun, en 8-15 og skýjað norðaustan til og stöku skúrir eða él.

Hiti 2 til 10 stig, hlýjast syðst.

Athugasemd veðurfræðings:

Slydda eða snjókoma og hálka á fjallvegum norðantil á landinu. Gengur í norðvestanhvassviðri eða -stormi á Suðausturlandi.

Í gildi eru viðvaranir vegna veðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×