Innlent

Skoða á­bendingar um mann sem elti börn í Foss­vogi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Fossvogsskóla í Reykjavík.
Frá Fossvogsskóla í Reykjavík. Vísir/Egill

Skólastjórnendur í Fossvogsskóla í Reykjavík hafa upplýst lögreglu um karlmann sem hafi verið að elta börn eftir skólatíma á svæðinu. Sá er sagður snoðklipptur, hlaupahjólsnotandi og reykingamaður sem talar ekki íslensku.

Forráðamönnum í Fossvogsskóla barst póstur um manninn eftir hádegið í dag.

„Við höfum fengið ábendingar um að í dalnum okkar sé maður sem hafi verið að elta börn eftir skólatíma. Hann hafi verið við bláa hoppubelginn, við skólann og við Víkina. Lýsingin sem við höfum fengið er að hann sé snoðklipptur, reyki og tali ekki íslensku. Hann er oft á hlaupahjóli sem er gult og svart,“ segir í póstinum.

Búið sé að upplýsa lögreglu um málið og fengist staðfesting að málið sé í ferli. 

„Stafsfólk okkar er upplýst um málið og fylgist vel með á skólatíma. Mikilvægt er að vera vel vakandi og vinna saman að öryggi barnanna okkar.“

Fjallað var um það í maí að foreldrarölt hefði verið stóreflt í Hafnarfirði eftir að tilkynningar höfðu í fjórgang borist um karlmann sem hefði veist að eða ónáðað börn á svæðinu. Engar fregnir hafa borist af umræddum manni síðan.


Tengdar fréttir

Komu til skila að hegðunin væri ekki líðandi

Karlmaður sem hefur vanið komur sínar að leikvelli við Gerðasafnið í Kópavogi var færður til yfirheyrslu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær. Málið er til rannsóknar.

Unglingspiltur dæmdur fyrir þrjár hnífaárásir

Unglingspiltur hefur hlotið átján mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna ýmissa brota, en þrjú þeirra voru ofbeldisbrot framin með hníf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×