Fótbolti

Franskur fast­eigna­sali með flautuna á föstu­dag

Sindri Sverrisson skrifar
Willy Delajod fer yfir málin með Kylian Mbappé sem þá var leikmaður PSG, í frönsku deildinni á síðustu leiktíð.
Willy Delajod fer yfir málin með Kylian Mbappé sem þá var leikmaður PSG, í frönsku deildinni á síðustu leiktíð. Getty/Antonio Borga

Hinn 31 árs gamli Willy Delajod mun sjá um að dæma fyrsta leik Íslands á nýrri leiktíð í Þjóðadeild karla í fótbolta, þegar liðið tekur á móti Svartfjallalandi á Laugardalsvelli á föstudagskvöld.

Delajod er Frakki og hefur því aðallega dæmt í frönsku 1. deildinni. Utan vallar starfar hann sem fasteignasali og það kom honum í ákveðið klandur síðasta vetur þegar ósáttir stuðningsmenn  Monaco hringdu í hann og sendu honum skilaboð, eftir 2-2 jafntefli við Marseille þar sem Delajod rak tvo leikmenn Monaco af velli. 

Delajod viðurkenndi að hafa ekki átt sína bestu frammistöðu í leiknum en mátti þola óhóflegt níð:

„Símanúmerið mitt var opinbert vegna starfa minna sem fasteignasali og síminn hringdi á tveggja mínútna fresti. Þetta voru nafnlaus símtöl þar sem verið var að móðga mig. Ég fékk líka fullt af ljótum skilaboðum á samfélagsmiðlum og varð að biðja umboðsskrifstofu mína um að sjá um að eyða hatursskilaboðum,“ sagði Delajod þegar hann opnaði sig um málið.

Willy Delajod hafði í nógu að snúast í eina leiknum sem hann dæmdi í undankeppni EM í fyrra, á milli Rúmeníu og Kósovó, og lyfti gula spjaldinu tíu sinnum og því rauða einu sinni.Getty/Alex Nicodim

Delajod hefur litla reynslu af því að dæma A-landsleiki en hefur dæmt nokkra vináttulandsleiki og sá svo um að dæma leik Rúmeníu og Kósovó í undankeppni EM í fyrra. Þar fór gula spjaldið oft á loft eða alls tíu sinnum, og það rauða fylgdi einu sinni í kjölfarið.

Delajod hefur einnig dæmt leiki í Sambandsdeild Evrópu og Evrópudeildinni, en hefur eins og fyrr segir langmesta reynslu af því að dæma í franska boltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×