Erlent

Þungt haldnir eftir að eldingu laust niður á fótboltaæfingu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Átta voru fluttir á sjúkrahús. Myndin er úr safni.
Átta voru fluttir á sjúkrahús. Myndin er úr safni. getty

Átta manns voru fluttir á sjúkrahús í Stokkhólmi í gærkvöldi eftir að hafa orðið fyrir eldingu á fótboltaæfingu. Þrír drengir á táningsaldri eru alvarlega slasaðir.

Atvikið átti sér stað í Lidingö fyrir utan Stokkhólm. Nokkrir iðkenda höfðu sótt sér skjól frá þrumuveðri undir tré. Samkvæmt frétt SVT frá því í gær laust eldingu niður í tréð með þeim afleiðingum að átta slösuðust, þar af þrír alvarlega.

„Ég hef aldrei komið að sambærilegu atviki,“ er haft eftir forsvarsmanni viðbragðsaðila Barry Levis. 

Knattspyrnuliðið hefur staðfest að atvikið átti sér stað á meðan fótboltaæfingunni stóð. Í frétt SVT í dag er rætt við föður drengs sem varð fyrir eldingu. Hann segir fjölskylduna í uppnámi. 

„Hann missti alla tilfinningu í löppunum hann er byrjaður að finna til núna. Í morgun skoðuðu þeir hann á ný og hann er á batavegi. Vonandi verður hann útskrifaður í dag,“ er haft eftir föðurnum.

„Læknirinn sagði að þetta væri einn á móti milljón, og að hann væri ótrúlega heppinn að hafa lifað þetta af.“ Ekki liggur fyrir hvert ástand hinna særðu er. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×