Erlent

Starfs­maður Wells Fargo sat látinn við skrif­borð sitt í fjóra daga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Starfsmenn höfðu kvartað yfir ólykt en enginn virðist hafa lagt mikið á sig til að finna uppruna hennar.
Starfsmenn höfðu kvartað yfir ólykt en enginn virðist hafa lagt mikið á sig til að finna uppruna hennar. Getty

Rannsókn stendur yfir á andláti starfsmanns Wells Fargo í Arizona, sem mætti til vinnu klukkan sjö á föstudagsmorgni og fannst látinn við skrifborðið sitt fjórum dögum síðar.

Hin 60 ára Denise Prudhomme mætti til vinnu að morgni dags 16. ágúst en 20. ágúst var lögregla kölluð til eftir að hún fannst látin við skrifborð sitt. Samkvæmt starfsmanni Wells Fargo kom kollegi að Prudhomme látinni þegar hann lagði leið sína framhjá básnum hennar.

Samkvæmt 12News var bás Prudhomme staðsettur á 3. hæð umræddrar byggingar og fjarri aðal gönguleiðinni um hæðina. Starfsmenn sem 12News ræddu við sögðu nokkra hafa kvartað yfir ólykt en talið að lyktina mætti rekja til vandamála með pípulagnirnar.

Einn starfsmaður sagði hörmulegt að atvik sem þetta gæti átt sér stað; að enginn hefði athugað með Prudhomme.

Lögregla segir ekkert benda til þess að saknæmt athæfi hafi átt sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×