Sport

Duplantis heldur á­fram að hækka rána og Ingebrigtsen bætti met frá síðustu öld

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Armand Duplantis hefur nú bætt heimsmetið í stangastökki tíu sinnum á ferlinum.
Armand Duplantis hefur nú bætt heimsmetið í stangastökki tíu sinnum á ferlinum. Daniela Porcelli/Eurasia Sport Images/Getty Images

Norðmaðurinn Jakob Ingebrigtsen bætti 28 ára gamalt heimsmet í 3.000 metra hlaupi á Demantamótaröðinni í frjálsum íþróttum í dag. Svíin Armand Duplantis bætti einnig sitt eigið heimsmet í stangastökki, en þetta er í tíunda sinn sem Duplantis bætir heimsmetið.

Ingebrigtsen virtist ekki ætla að trúa því þegar hann leit á klukkuna eftir að hann kom fyrstur í mark í 3.000 metra hlaupi karla í dag. Norðmaðurinn kom í mark á tímanum 7:17,55 og bætti því heimsmet Keníumannsins Daniel Komen frá árinu 1996 um rúmar þrjár sekúndur, en met Komen var 7:20,67.

Met Komen var það met sem hafði staðið hvað lengst í einstaklingsíþrótt í frjálsum íþróttum.

Þá heldur Svíinn Armand Duplantis að hækka rána í stangastökki, en hann bætti heimsmetið í greininni í þriðja sinn á tímabilinu í dag.

Þessi 24 ára gamli stangastökkvari stökk yfir 6,26 metra sem er bæting um einn sentímeter. Fyrra metið setti Duplantis á Ólympíuleikunum í París fyrir aðeins tuttugu dögum, en í heildina hefur hann bætt heimsmetið í greininni tíu sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×