Fótbolti

Klúðraði færi sem voru 94 prósent líkur á að skora úr

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Á einhvern óskiljanlegan hátt skoraði Marc Guiu ekki úr þessu færi.
Á einhvern óskiljanlegan hátt skoraði Marc Guiu ekki úr þessu færi.

Marc Guiu, leikmaður Chelsea, klúðraði sannkölluðu dauðafæri í leik gegn Servette í umspili um sæti í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í gær.

Chelsea vann leikinn, 2-0, með mörkum Christophers Nkunku og Nonis Madueke. Aðalumræðuefnið eftir leikinn var samt ótrúlegt klúður Guius skömmu eftir mark Nkunkus.

Frakkinn kom Chelsea yfir með marki úr vítaspyrnu á 50. mínútu. Skömmu síðar pressaði Guiu markvörð Servette, Jeremy Frick, og vann boltann. Það eina sem hann átti svo eftir að gera til að koma Chelsea í 2-0 var að renna boltanum í netið.

Það tókst honum þó ekki því skotið var mislukkað og Frick varði. Guiu tók frákastið en Guiu varði aftur.

Samkvæmt xG tölfræðinni svokölluðu, sem reiknar út hversu líklegt er að skora úr hverju færi, er varla hægt að fá betra færi en Guiu fékk í fyrra skiptið. Færið var með 0,94 í xG og því voru 94 prósent líkur á að hann ætti að skora úr því. En það tókst ekki.

Sem betur fer fyrir Guiu og Chelsea kom þetta klúður ekki í bakið á þeim. Madueke skoraði annað mark heimamanna þegar fjórtán mínútur voru til leiksloka og gulltryggði sigur þeirra. Seinni leikurinn fer fram í Sviss eftir viku.

Guiu, sem er átján ára spænskur framherji, kom til Chelsea frá Barcelona fyrir tímabilið. Hann skoraði tvö mörk fyrir Börsunga á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×