Innlent

Geirsgata opnuð í báðar áttir á morgun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá framkvæmdunum við Geirsgötu.
Frá framkvæmdunum við Geirsgötu. Vísir/Vilhelm

Opnað verður fyrir umferð um Geirsgötu í miðbæ Reykjavíkur í báðar áttir á nýjan leik á morgun. Lokað hefur verið fyrir akstur í aðra átt í einu síðan á fimmtudag í síðustu viku.

Reykvíkingar og nærsveitungar hafa fundið fyrir auknum umferðarþunga á Hringbraut og Miklubraut undanfarna viku. Þungan má vafalítið rekja til þess að vinnandi fólk er í auknum mæli mætt til vinnu eftir sumarfrí auk þess sem háskólarnir eru farnir af stað.

Unnið hörðum höndum.Vísir/Vilhelm

Umferðarþungan má sömuleiðis rekja til þess að lokað hefur verið fyrir umferð um Geirsgötu í aðra áttina síðan á fimmtudag. 

Í tilkynningu frá verkfræðistofunni Hnit kemur fram að opnað verði fyrir umferð á morgun.

Opnað verður fyrir bílaumferð á morgun og í framhaldinu styttist í opnun gönguþverunarinnar.Vísir/Vilhelm

„Athuga skal að áfram verður lokað fyrir gangandi umferð yfir Geirsgötuna hjá Reykjastræti og fólki bent á gönguljós beggja vegna við lokunina. Sýna skal aukna aðgát við akstur á framkvæmdasvæðinu,“ segir Ásgeir Ólafsson, verkfræðingur hjá Hnit, í tilkynningu.

Verkið í heild felst í því að fræsa burt núverandi malbik og leggja kantsteina sitthvoru megin til að lyfta göngufletinum sex sentimetra upp yfir malbikshæð götunnar. Snjóbræðsla verður lögð í gönguflötinn og malbikað yfir. Loks verður máluð sebrabraut yfir götuna og gengið frá hellulögn gangstétta og í miðeyju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×