Neytendur

Verð­lag á mat­vöru lækkar í fyrsta sinn frá því í mars

Lovísa Arnardóttir skrifar
Verðlag á matvöru hefur lækkað. Áhrifa Prís gætir ekki í nýjustu könnun en verð er lægra þar en í Bónus og Krónunni.
Verðlag á matvöru hefur lækkað. Áhrifa Prís gætir ekki í nýjustu könnun en verð er lægra þar en í Bónus og Krónunni. Vísir/Vilhelm

Verðlag á matvöru hefur lækkað, samkvæmt greiningu verðlagseftirlits ASÍ, í fyrsta sinn frá því að nýir kjarasamningar voru undirritaðir í mars. Þróunin var komin vel á leið fyrir opnun lágvöruverðsverslunarinnar Prís um helgina. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá verðlagseftirliti ASÍ.

Í tilkynningunni segir að frá undirritun kjarasamninga hafi verðlag á matvöru hækkað á bilinu 0,2 til 0,7 prósent á mánuði. Óvenju mikil hækkun mældist á matvöru síðasta mánuði, eða um 0,7 prósent. Í tilkynningu verðlagseftirlits ASÍ segir að hækkunina megi að mestu skýra með hækkunum í verslunum Samkaupa.  Nánar hér á vef ASÍ.

Þar kemur einnig fram að verðlag í Nettó, Kjörbúðinni og Krambúðinni hafi hækkað umtalsvert í júlí en lækkað svo aftur í ágúst. Verðlag í Bónus hækkaði lítillega í ágúst miðað við hvað það var í júlí en í Hagkaup stóð verðlag í stað á milli mánaða samkvæmt tilkynningunni.

Sé litið yfir lengra tímabili sést að verðlag í Krónunni hefur frá undirritun kjarasamninga hækkað minna en í Bónus.

Nýjustu mælingar verðlagseftirlitsins benda svo til þess að verðlag hafi lækkað um 0,2 prósent milli júlí og þess sem af er ágústmánaðar. Í Nettó, sem dæmi, hafa vörur lækkað í mörgum flokkum. Mest lækki í flokki léttmjólkur eða um 4,4 prósent. Þær vörur sem hafi hækkað hækki mismikið en gæludýrarvörur hafi hækkað mest, eða um 0,9 prósent.

Þá segir í tilkynningunni að yfir sumarmánuðina hafi verðlag á matvöru hækkað mest í Bónus. Hástökkvarinn í versluninni sé Arla Havarti 300 gramma ostur sem hefur hækkað um 67 prósent í verði. Aðrar vörur sem hafa hækkað mikið eru kíví í lausu en það hefur hækkað um 30 prósent. Kíló af Hornafjarðar rauðum kartöflum hefur hækkað um 25 prósent og hálft kíló af SFG gulrótum líka. 

Þá hefur Hellman’s dressing, 250ml, hækkað um 24 prósent og Freyju Rís, 70gr, um 22 prósent. Þeir flokkar sem vega mest í verðlagshækkun Bónus yfir sumarið eru ávextir, kjöt, fiskur og sælgæti.

Prís með lægra verð í 96 prósent tilfella

Í tilkynningu verðlagseftirlits ASÍ segir að áhrifin af opnun lágvöruverðsverslunarinnar Prís séu ekki komin fram í verðsamanburði þeirra en að í fyrstu athugun þeirra á opnunardegi hafi Prís verið með lægra verð en Bónus og Krónan í um 96 prósent tilfella. Í yfir 10 prósent tilfella var munurinn meira en 10 prósent og í meira en fjórðungi tilfella yfir 5 prósent.

Sama dag og verslunin opnaði voru verð á MS ostum lækkuð í Bónus, niður að verðinu sem bauðst í Prís.

Í tilkynningu verðlagseftirlitsins segir um könnunina að verðlagsbreytingar séu reiknaðar með vigtun vöruflokka og verslana.

„Þegar talað er um breytingu á verðlagi er um að ræða veginn útreikning, en breyting á verði merkir stakan samanburð eða óvegið meðaltal. Við verðsamanburð eru skoðuð meðalverð sérhverrar vöru yfir mánuðinn (eða 6-13. mars þegar borið er saman við undirritun kjarasamninga) og borin saman við meðalverð mánaðarins á undan. Breytingar eru svo vegnar útfrá mikilvægi vöruflokka. Fjöldi samanburða í hverjum mánuði er um eða yfir 20.000.“


Tengdar fréttir

Lágvöruverðsverslunin Prís opnar í dag

Prís, ný lágvöruverðsverslun, opnaði í dag á Smáratorgi 3 í turninum. Prís er fyrsti nýi aðilinn til að koma inn á lágvöruverðsmarkað í 24 ár.

Upplifunin verði eins og að fara í búð í útlöndum

Prís, ný lágvöruverðsverslun opnar dyr sínar um miðjan ágúst ef áætlanir ganga eftir. Framkvæmdastjórinn segir að upplifun viðskiptavina verði svolítið eins og að fara í búð í útlöndum. 

Dæmi um fimmtíu prósenta hækkun á matvöru

Verðlag á matvöru hefur tekið að hækka hratt, um 0,65% milli mánaða eða 9,2% á ársgrundvelli, samkvæmt nýjustu mælingum verðlagseftirlits ASÍ. Mest verðhækkun er í Kjörbúðinni og Nettó þar sem verð á grænum baunum hækkar um 30 prósent. Þá rýkur sellerí upp í verði hjá Krónunni.

Hvetja fólk til að taka verð­merkingum í Hag­kaup með fyrir­vara

Alþýðusamband Íslands, ASÍ, segir verðmerkingar í Hagkaup óáreiðanlegar. Í einhverjum tilfellum séu tvær ólíkar verðmerkingar á sömu vöru í sömu verslun en slík dæmi finnist aðeins örsjaldan í öðrum verslunum. Í einu tilfelli hafi munurinn numið 260 krónum. Sektir hafi ekki dugað. ASÍ hvetur neytendur til að taka verðmerkingum í hillu í Hagkaup með fyrirvara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×