Innlent

Skoða mál þar sem fólk fékk ekki greitt upp­safnað or­lof

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis. Vísir/Ívar

Stéttarfélagið Sameyki hefur til skoðunar mál þar sem starfsmönnum Reykjavíkurborgar var neitað um að fá orlof greitt aftur í tímann. 

Athygli vakti á dögunum þegar greint var frá því að Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, hefði fengið greiddar tíu milljónir króna í uppsafnað orlof.

„Við höfum fengið ábendingar um að orlofsinneign hafi horfið út úr kerfinu. Við erum að vinna með þær og erum rétt að hefja þá vinnu. Við erum ekki komin lengra en að fá staðfestingu okkar félagsmanna á að slíkt hafi átt sér stað og hvernig það hafi komið til,“ segir Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að tekið verði á málunum þar sem nú sé komið fordæmi fyrir því að orlof fyrnist ekki hjá borginni og vísar þar til greiðslunnar til Dags.

„Það eru nákvæmlega sömu reglur sem gilda um borgarstjóra og aðra starfsmenn borgarinnar. Það er gert upp orlof við starfslok. Þetta er samkvæmt kjarasamningi Sameykis í ráðningarbréfi borgarstjóra,“ sagði Dagur í samtali við Stöð 2 í síðustu viku.

Hann sagðist hins vegar ekki vita til þess hvort aðrir starfsmenn hefðu fengið greiðslur jafn langt aftur í tímann við starfslok.

Dagur sagðist skilja vel gagnrýni fólks.

„En þegar fólk áttar sig á að þessi upphæð hefur safnast upp á tíu árum og inn í tölunni eru launatengd gjöld þá ætti það að skilja málið betur,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×