Lífið

Brad Pitt stoppaði í ham­borgara í Dalakofanum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Leikarinn fékk sér ostborgara í Dalakofanum.
Leikarinn fékk sér ostborgara í Dalakofanum. Vísir/Getty og Aðsend

Leikarinn Brad Pitt er á landinu og fékk sér hamborgara í Dalakofanum í Laugum í Reykjadal í gær. Ingibjörg Arna Friðgeirsdóttir starfar í Dalakofanum og er ein þeirra sem afgreiddi leikarann í gær. Hún segir hann hafa verið afar kurteisan og að honum hafi þótt hamborgarinn góður.

Hann var í för með þremur öðrum Bandaríkjamönnum og fengu þeir sér allir að borða. Þrír þeirra voru á mótorhjóli að sögn Ingibjargar. Fyrst var fjallað um málið á vef DV í dag.

„Ég var í pásu inni á kaffistofu þegar hann kom. Hin sem ég vinn með kom til mín og sagði mér að hann væri kominn en ég auðvitað trúði henni ekkert,“ segir Ingibjörg létt.

Hún fór samt fram og athugaði málið en vegna þess hve vel klæddur hann var átti hún erfitt með að sjá hvort þetta væri raunverulega hann.

„Hann var með húfu og sólgleraugu en þegar hann tók gleraugun af sá ég að þetta var hann. Það var mjög skrítið.“

Stoppuðu í 45 mínútur

Hún segir að hann og vinir hans hafi stoppað í um 45 mínútur í Dalakofanum og svo haldið áfram ferðalagi sínu. Hún segir að félagarnir hafi fengið að borða í friði.

„En þegar þeir fóru stóð einn gesturinn upp og fylgdist með þeim. Hann vissi greinilega hver hann var. Við kunnum ekkert við það að vera að trufla þá.“

Þetta gerist væntanlega ekki oft?

„Nei, það eru kannski einhverjir frægir Íslendingar sem koma en manni myndi aldrei detta í hug að hann myndi koma hingað af öllum stöðum,“ segir Ingibjörg Arna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.