Erlent

Eldur í Zaporizhzhia-kjarn­orku­ver­inu í Úkraínu

Eiður Þór Árnason skrifar
Mynd úr eftirlitsmyndavél sem deilt var af embætti Úkraínuforseta sýnir reyk stíga upp úr kæliturni orkuversins í borginni Energodar.
Mynd úr eftirlitsmyndavél sem deilt var af embætti Úkraínuforseta sýnir reyk stíga upp úr kæliturni orkuversins í borginni Energodar. Fjölmiðlaskrifstofa úkraínska forsetaembættisins

Eldur braust út í kæliturni Zaporizhzhia-kjarnorkuversins í suðurhluta Úkraínu í dag. Um er að ræða stærsta kjarnorkuver Evrópu og hafa Rússar og Úkraínumenn kennt hvor öðrum um atvikið.

Að sögn þeirra hefur ekki mælst aukin geislavirkni í kringum orkuverið sem hefur verið undir stjórn rússneskra hersveita frá því fljótlega eftir upphaf allsherjarinnrár í Úkraínu árið 2022. 

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin segir sérfræðinga á vegum hennar hafa séð svartan reyk frá norðurhluta kjarnorkuversins eftir að hafa heyrt nokkrar sprengingar. Starfsmenn versins eru sagðir hafa tilkynnt drónaárás á einn kæliturninn. Stofnunin segir atvikið ekki hafa áhrif á öryggi kjarnorkuversins.

„Í kjölfar sprengiárásar úkraínska hersins á bæinn Energodar kviknaði eldur í kælikerfi Zaporizhzhia-kjarnorkuversins,“ segir Yevgeny Balitsky, héraðsstjóri Zaporizhzhia-héraðs á samskiptamiðlinum Telegram. Rússar útnefndu hann héraðsstjóra eftir að þeir náðu svæðinu á sitt vald.

Geislun sögð mælast eðlileg

Volodímír Selenskí Úkraínuforseti segir að „rússneskir hernámsmenn hafi kveikt eld“ í orkuverinu. Í færslu sem hann birti um klukkan 19 segir hann mælingar sýna að geislunarstig sé eðlilegt. Hann birtir myndskeið úr eftirlitsmyndavél sem sýnir svartan reyk streyma úr einum kæliturnunum og eld loga fyrir neðan.

Balitsky segir sömuleiðis að geislun í kringum orkuverið hafi mælst eðlileg, að því er fram kemur í frétt France24. Innanríkisráðherra Úkraínu segist fylgjast náið með ástandinu og gögnum frá mælistöðvum nálægt kjarnorkuverinu. Að sögn héraðsstjórans Balitsky er búið að slökkva á öllum sex einingum versins.

„Það er engin hætta á gufusprengingu eða öðrum afleiðingum,“ segir hann og bættir við að slökkviliðsmenn séu á staðnum að berjast við eldinn.

Kjarnorkuverið stendur við austurbakka Dnipro-árinnar þar sem átakalína Rússa og Úkraínumanna liggur en Úkraínuher hefur hinn árbakkann undir sinni stjórn. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur ítrekað hvatt til stillingar á svæðinu og óttast að kærulausar hernaðaraðgerðir gætu leitt til umfangsmikils kjarnorkuslyss.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Úkraínuforseti skorar á heimsbyggðina að vakna

Forseti Úkraínu segir heimsbyggðina verða að beina athygli sinni að undirbúningi Rússa fyrir að sprengja kjarnorkuverið í Zaporizhzhia í loft upp. Aðeins athygli alþjóðasamfélagsins og vissa um viðbrögð þess geti fælt Rússa frá hryðjuverkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×