Fótbolti

Umhverfissinnar unnu skemmdar­verk á lúxusvillu Messi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þrír einstaklingar úr hópnum Futuro Vegetal bera ábyrgð á innbrotinu.
Þrír einstaklingar úr hópnum Futuro Vegetal bera ábyrgð á innbrotinu. instagram / @diariosur

Glæsihýsi Lionels Messi varð fyrir árás umhverfissinna í nótt. Brotist var inn á lóðina og málningu kastað yfir alla veggi. 

Messi festi kaup á húsinu árið 2022 fyrir 11 milljónir evra. Futuro Vegetal (ísl. Grænmetismiðuð framtíð) er aktívistahópur umhverfissinna sem hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni.

„Við lituðum ólöglegt hús Messi á Ibiza. Það var byggt með ólögmætum hætti fyrir gríðarlegar upphæðir. Meðan það gerist hafa 2-4 aðilar dáið við Baleareyjar vegna hitabylgjunnar. Ríkasta 1% mannkyns er með jafn mikið kolefnisfótspor og fátækasti þriðjungurinn. Við þurfum róttækar breytingar og aðgerðir í loftslagsmálum,“ segir í yfirlýsingunni á X.

Hópurinn birti einnig myndir af innbrotinu á Instagram þar sem haldið var á skilti sem á stóð: „Bjargið plánetunni. Borðið ríka fólkið. Leggið lögregluna niður.“

Messi hefur dvalið í húsinu í sumarfríum undanfarin tvö ár en ákvað að fara til Argentínu í sumar eftir að hafa unnið Copa América í byrjun júlí.

Hann var því ekki á svæðinu þegar brotist var inn og hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið ennþá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×