Innlent

Ó­ljóst hvað veldur svo stórum jökul­hlaupum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Benedikt Ófeigsson fagstjóri hjá Veðurstofunni.
Benedikt Ófeigsson fagstjóri hjá Veðurstofunni. Vísir

Veðurfræðingur segir líklegt að jökulhlaup úr Mýrdalsjökli hafi þegar náð hámarki. Jökulhlaup verði á hverju sumri en óljóst sé hvað veldur því að sum séu stærri en önnur. Sem fyrr sé möguleiki á eldgosi í Kötlu. 

„Þetta er í stærri kantinum. Það er mjög algengt og á hverju sumri eru mörg hlaup úr Mýrdalsjökli í mismunandi ár og þetta gerist seinni hluta sumars,“ segir Benedikt Ófeigsson fagstjóri hjá Veðurstofunni.

Einstaka sinnum komi stærri hlaup og þetta sé eitt af þeim, önnur stór hafi orðið 2011 og 1955. 

„Þannig að þau koma ekki oft en þau koma.“

Hvað veldur því að þau séu stærri?

„Það er óljóst. Eitthvað veldur því að það kemst meira vatn af stað og líklega hefur það með jarðhitakerfið að gera, í eldstöðinni. Það nær einhvern veginn að hleypa meira vatni í einu heldur en almennt gengur og gerist. Þá fáum við stærri hlaup sem geta valdið usla.“

Benedikt sagði svo virðast sem hlaupið væri að ná hámarki við þjóðveginn á sjöunda tímanum. „Við sáum ummerki frá ljósmyndum úr flugi að það var líklega farið að sjatna við jökulsporðinn um þrjúleytið og núna virðist það vera búið að ná hámarki við þjóðveginn.“

Klippa: Óvissustig vegna hlaups

Þýðir þetta að það gæti gosið í Kötlu?

„Það getur komið gos í Kötlu hvenær sem er. Við erum búin að vera að bíða eftir henni síðan 1950. Þannig að það er alltaf möguleiki. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×