Erlent

Segja neyðar­á­stand ríkja vegna aukins of­beldis gegn konum og stúlkum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ein af hverjum tólf konum á Englandi og í Wales verður fyrir kynbundnu ofbeldi á ári hverju.
Ein af hverjum tólf konum á Englandi og í Wales verður fyrir kynbundnu ofbeldi á ári hverju.

Lögregluyfirvöld á Englandi og í Wales segja neyðarástand ríkja þegar kemur að ofbeldi gegn konum og stúlkum. Tvær milljónir kvenna verða fyrir ofbeldi af hálfu karla á ári hverju í Englandi og Wales, samkvæmt samtökum lögreglustjóra.

Brotum gegn konum og stúlkum á Englandi og í Wales hefur fjölgað um 37 prósent á síðustu fimm árum og áætlað er að ein af hverjum tólf konum og stúlkum verði fyrir kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi eða áreitni á hverju ári.

Lögreglustjórarnir segja brotamennina verða sífellt yngri og vara við áhrifavöldum á borð við Andrew Tate og þeirri kvenfyrirlitningu sem þeir boða. Lögreglan líkir áhrifum manna á borð við Tate á unga menn við tilraunir hryðjuverkahópa til að virkja unga fylgjendur og segja tæknifyrirtækin þurfa að grípa til aðgerða.

Ofannefndar tölur eru varlega áætlaðar þar sem talið er að mun fleiri brot séu framin en tilkynnt. Um 20 prósent allra þeirra brota sem lögregla hefur afskipti af eru gegn konum og stúlkum og þá er talið að eitt af hverjum sex manndrápum tengist heimilisofbeldi.

Guardian hefur eftir Louisu Rolfe, sem fer fyrir aðgerðum gegn heimilisofbeldi hjá lögreglunni í Lundúnum, segir tilvikum hafa fjölgað þar sem ungir menn þrengja að hálsi stúlkna í kynlífi án samþykkis og telja það eðlilegan hlut. 

Um sé að ræða ógnvænlega þróun, þar sem lítið megi útaf bera til að illa fari.

Sérfræðingar segja að það þurfi meðal annars að taka á vandanum á netinu og útrýma töfum í dómskerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×