Erlent

Segja mörg kerfi komin í lag eftir bilunina á föstu­dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Útbreidd áhrif bilunarinnar þykja til marks um það hversu háð samfélagið er hinum ýmsu tölvukerfum.
Útbreidd áhrif bilunarinnar þykja til marks um það hversu háð samfélagið er hinum ýmsu tölvukerfum. AP/Haven Daley

Öryggisfyrirtækið CrowdStrike segir umtalsverðan fjölda tækja sem varð fyrir bilun á föstudag vegna gallaðrar hugbúnaðaruppfærslu á föstudag vera kominn í lag.

Öryggisuppfærslan varð til þess að margar tölvur með Microsoft Windows hrundu og CrowdStrike segir að enn sé unnið að því að koma öllum kerfum í lag. 

Microsoft áætlar að atvikið, sem er lýst sem mögulega því versta sem upp hefur komið, hafi haft áhrif á 8,5 milljónir tölva út um allan heim. Sjúkrahús, bankar og flugfélög voru meðal þeirra sem fóru verst út úr hruninu og sum eru enn að vinna úr vandanum sem skapaðist.

Samkvæmt BBC voru 1,400 flugferðir til og frá Bandaríkjunum felldar niður á sunnudag en bilunin kom verst niður á flugfélögunum United Airlines og Delta. Þá varð hún þess einnig valdandi að hökt varð á heilbrigðisþjónustu í Bretlandi, Ísrael og Þýskalandi.

CrowdStrike, sem stærði sig af því að vera með 29 þúsund kúnna út um allan heim, þeirra á meðal sum stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna, hefur beðist afsökunar á atvikinu og boðað uppfærslu sem á að hraða því að kerfin komist í lag á ný. 

Fyrirtækið hefur hins vegar ekki gefið út hversu margir kúnnar eru enn að glíma við vandamál vegna bilunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×