Lífið

„Ég grét svo mikið“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Það er ýmislegt framundan hjá Aníta Briem.
Það er ýmislegt framundan hjá Aníta Briem. Vísir/Vilhelm

Aníta Briem segir það hafa verið mjög tilfinningaþrungið að leika óléttan karakter í þáttaseríunni Ráðherrann á meðan hún var sjálf að reyna að eignast barn. Hún og kærastinn Hafþór Waldorff eiga von á stelpu í nóvember.

Aníta ræddi þetta og ýmislegt annað í Bakaríinu á Bylgjunni í dag. Hlusta má á klippuna í heild sinni neðst í fréttinni. 

Aníta rifjaði upp sinn fyrsta barnsburð og segir að sér hafi verið ráðlagt af umboðsmönnum að greina ekki frá barnsburðinum í Hollywood-umhverfinu. 

„Fólk verður bara hrætt um að maður sé ekki eins sexy, verða gömul og að þetta sé að verða búið,“ segir hún um fyrstu óléttuna. „Ég var bara rétt að detta í þrítugt. Í þetta skiptið er þetta svo mikill fögnuður, þakklæti. Og stolt að líkaminn geti þetta.“

Hún flutti sextán ára til að fara í leiklistarskóla í Lundúnum og 22 ára til Los Angeles.

„Það gerðist allt mjög óvart, ég datt inn í stóran heim mjög hratt.“

Aníta fór með hlutverk í þáttaseríunni Svo lengi sem við lifum, sem sýnd var á Stöð 2 á síðasta ári. Hún segir undanfarna mánuði hafa verið mikinn rússibana. Framundan hjá Anítu eru handritaskrif upp úr bókinni Stóri bróðir eftir Skúla Sigurðsson sem vann Blóðdropann fyrir tveimur árum. Það var fyrsta bók Skúla. „Sálfræði-spennutryllir,“ segir Aníta.

Mikael Kaaber og Aníta Briem fóru með aðalhlutverk í þáttunum Svo lengi sem við lifum.Anton Brink

Fjögurra daga gamalt barn í tökum

Fleira er framundan hjá Anítu. Sjónvarpsserían Ráðherrann 2 er væntanleg þar sem Aníta fer með hlutverk Steinunnar. 

„Hún er ólétt á þessum tíma og við sjálf þráðum svo mikið að eignast barn, og vorum að reyna að eignast barn. Ég var í tökum með alls konar bumbur á mér og það voru oft flóknar tilfinningar. Því maður vissi ekki hvort maður yrði svo heppinn að upplifa þetta aftur.“

Aníta og Hafþór Waldorff eiga von á sínu fyrsta barni saman í nóvember.

„Það er ein sena á fæðingadeildinni þar sem fjögurra daga barn leikur með okkur. Í miðri töku fæ ég barnið í fangið og ég grét svo mikið. Ég grét svo mikið.“ 

Hlusta má á klippuna úr Bakaríinu á Bylgjunni hér að neðan. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×