Erlent

56 prósent Demó­krata vilja að Biden stígi til hliðar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Af yfirlýsingum síðustu daga er ljóst að Demókrötum þykir vænt um Joe Biden en það fjarar undan stuðningi við hann.
Af yfirlýsingum síðustu daga er ljóst að Demókrötum þykir vænt um Joe Biden en það fjarar undan stuðningi við hann. Getty/Kevin Dietsch

Tveir af hverju þremur Bandaríkjamönnum segir Joe Biden Bandaríkjaforseta eiga að draga sig í hlé í forsetakosningunum vestanhafs. Alls eru 56 prósent Demókrata sama sinnis og sjö af hverjum tíu óháðum.

Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Washington Post, ABC News og Ipsos.

Þrátt fyrir að þær raddir heyrist sífellt hærra sem kalla eftir því að forsetinn stigi til hliðar aldurs síns vegna hefur Biden þvertekið fyrir að hafa nokkuð slíkt í hyggju. Könnunin sýnir hins vegar að staðhæfingar forsetans um að það sé aðeins ákveðin „flokkselíta“ sem vilji að hann víki eiga ekki við rök að styðjast.

Þátttakendur í könnuninni voru einnig spurðir að því hvort þeir vildu heldur sjá Biden eða Donald Trump í Hvíta húsinu en stuðningur við frambjóðendurna virðist hnífjafn; báðir mældust með 46 prósent stuðning.

Þetta er ekki alveg í takt við aðrar kannanir en Washington Post greinir frá því að ef niðurstöður átta annarra skoðanakannana, sem teknar voru eftir kappræður Biden og Trump, eru skoðaðar hefur forskot Trump aukist úr einu prósenti fyrir kappræðurnar í 3,5 prósent eftir kappræðurnar.

Á þessum tíma fyrir fjórum árum var Biden með níu til ellefu prósent forskot á Trump og sigraði hann með 4,6 prósent mun. 

Athygli vekur að 50 prósent Bandaríkjamanna vilja að Trump stígi til hliðar sem forsetaefni Repúblikanaflokksins. Þá segja 58 prósent að báðir séu of gamlir til að sinna forsetaembættinu.

Demókratar voru einnig spurðir opinnar spurningar um hvern þeir vildu sjá taka við af Biden. Alls nefndu 29 prósent Kamölu Harris varaforseta, sjö prósent Gavin Newsom, ríkisstjóra Kaliforníu, og fjögur prósent Michelle Obama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×