Körfubolti

Agnes og Eva atkvæðamestar í tapi fyrir Tékkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eva Wium Elíasdóttir var með 16 stig, 6 fráköst, 3 stoðsendingar og 2 stolna bolta í leiknum í dag.
Eva Wium Elíasdóttir var með 16 stig, 6 fráköst, 3 stoðsendingar og 2 stolna bolta í leiknum í dag. fiba.basketball

Íslenska tuttugu ára landslið kvenna í körfubolta tapaði með sex stigum fyrir Tékkum, 67-61, í baráttunni um sæti í undanúrslitum í b-deild Evrópumótsins.

Íslensku stelpurnar eiga þar með ekki lengur möguleika á sæti í undanúrslitum en mæta Írum í lokaleik milliriðilsins á morgun.  Þær geta enn náð fimmta sætinu á mótinu.

Tékkar unnu leikinn 67-61 eftir að hafa verið níu stigum yfir í hálfleik, 36-27.

Íslenska liðið var 13-7 yfir í byrjun leiks en átti mjög erfiðan kafla í seinni hluta fyrsta leikhlutans sem Tékkarnir unnu með þrettán stigum, 17-4. Eftir það voru íslensku stelpurnar alltaf að elta.

Íslensku stelpurnar unnu seinni hálfleikinn með þremur stigum en það var bara ekki nóg.

Keflvíkingurinn Agnes María Svansdóttir var stigahæst með 19 stig en Þórsarinn Eva Wium Elíasdóttir skoraði 16 stig. Þær voru langatkvæðamestar í íslenska liðinu því þær voru einnig efstar í stoðsendingum með þrjár hvor.

Anna Lára Vignisdóttir (Keflavík) skoraði átta stig og Emma Hrönn Hákonardóttir (Þór Þorlákshöfn) var með 5 stig og 3 stolna bolta. Kristrún Ríkey Ólafsdóttir var með 5 stig og 6 fráköst.

Jana Falsdóttir (spilar með Njarðvík) var með 5 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar og Hekla Eik Nökkvadóttir (Grindavík) gaf einnig 3 stoðsendingar. Jana var frákastahæst í íslenska liðinu en þær Kristrún Ríkey, Eva Wium og Sara Líf Boama tóku einu frákasti minna. 

Íslenska liðið vann líka þær 27 mínútur sem Jana spilaði með þrettán stigum og tapaði því með nítján stigum þegar hún sat á bekknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×