Erlent

Lög­regla leitar manns með lásboga eftir dauða þriggja kvenna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Clifford er sagður mögulega vopnaður lásboga.
Clifford er sagður mögulega vopnaður lásboga.

Lögregluyfirvöld í Hertfordshire á Englandi leita nú  manns sem þau segja mögulega vopnaðan lásboga. Hafa þau varað fólk við því að nálgast mannninn ef hann verður á vegi þeirra.

Kyle Clifford, 26 ára, virðist vera grunaður um að hafa átt þátt í dauða þriggja kvenna sem fundust alvarlega særðar á heimili í Ashlyn Close í Bushey í Hertfordshire í gær. Konurnar, sem eru sagðar hafa tilheyrt sömu fjölskyldunni, létust á vettvangi.

Lögreglu var gert viðvart um árásina á konurnar og auglýstu í kjölfarið eftir Clifford, sem er sagður frá Enfield í norðurhluta Lundúna. Þeir sem verða hans varir eru beðnir um að hafa samband við neyðarnúmerið 999.

Rannsókn stendur enn yfir á því hvernig dauða kvennanna bar að garði.

Nágrannar segja lögreglu hafa gert leit á heimili Clifford í morgun. Einn þeirra sagði í samtali við blaðamann LBC að það myndi koma henni á óvart ef Clifford hefði orðið valdur dauða kvennanna. „Þau eru góð fjölskylda.“

Uppfært:

Lögregla hefur greint frá því á blaðamannafundi að konurnar hafi verið 25 ára, 28 ára og 61 árs. Árásin hafi beinst gegn þeim og ekki verið handahófskennd. Þá segir að önnur vopn en lásbogi kunni að hafa verið notuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×