Körfubolti

Álfta­nes fær til sín leikjahæsta Stjörnumanninn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjartan Atli Kjartanssyni, þjálfari Álftanesliðsins, býður Tómas Þórð Hilmarsson velkominn í sitt lið.
Kjartan Atli Kjartanssyni, þjálfari Álftanesliðsins, býður Tómas Þórð Hilmarsson velkominn í sitt lið. Álftanes

Tómas Þórður Hilmarsson hefur fært sig á milli liða í Garðabænum en hann hefur samið við Álftanes og spilar með liðinu i úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Tómas er leikjahæsti leikmaður Stjörnunnar í efstu deild.

Álftanes verður fyrsta liðið sem Tómas gengur í hér á landi fyrir utan uppeldisfélag sitt Stjörnuna.  Hann spilaði einu sinni á lánssamningi hjá FSu en Tómas hefur auk þess leikið á Spáni og í bandaríska háskólaboltanum. Hann á að baki ellefu leiki fyrir íslenska A-landsliðið og fjölmarga leiki með yngri landsliðum Íslands. 

Tómas hefur fimm sinnum orðið bikarmeistari. Hann hefur alls spilað 232 deildarleiki fyrir Stjörnuna eða 46 fleiri en næsthæsti maður sem er Justin Shouse með 86 leiki.

„Tilfinningin er góð að vera kominn í Álftanes og ég er mjög peppaður. Liðið lítur orðið mjög vel út og hlakka ég til komandi tímabils,“ segir Tómas Þórður Hilmarsson um vistaskiptin í fréttatilkynningu frá Álftanesi.

Hann segir að aðdragandinn hafi ekki verið langur og ferlið gengið smurt fyrir sig. Tómas þekkir Kjartan Atla Kjartansson, þjálfara Álftnesinga, nokkuð vel en Tómas lék fyrir Kjartan um árabil í yngri flokkum Stjörnunnar.

„Þjálfarateymið lítur mjög vel út með Hjalta kominn inn í þetta og þekkjandi Kjarra frá yngri árum þá veit ég hvað ég mun fá frá honum, auk þess sem leikmannahópurinn er mjög góð blanda af leikmönnum með reynslu og gæði.“

Þekkir Tómas vel

„Ég þekki Tomma vel. Ég þjálfaði hann lengi í yngri flokkunum, lék með honum í meistaraflokki og þjálfaði hann síðan sömuleiðis á þeim vettvangi. Hann er algjör nagli og er leikmaður sem er gott að hafa við hliðina á sér í baráttunni,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness.

Hann bætir við að Tómas sé reynslumikill leikmaður sem kemur með ýmsa kosti inn í leikmannahóp Álftnesinga. 

„Tommi þekkir deildina út og inn, frákastar virkilega vel, teygir á gólfinu með góðum langskotum og kemur með ýmislegt annað að borðinu. Ég hlakka til að sjá hann í Álftanesbúningnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×