Innlent

Ekkert elds­neyti í Staðar­­skála

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Staðarskáli er vinsæll áningarstaður þeirra sem leggja land undir fót. Oft nýtir fólk tækifærið til að rétta aðeins úr sér, kaupa hressingu, og taka eldsneyti.
Staðarskáli er vinsæll áningarstaður þeirra sem leggja land undir fót. Oft nýtir fólk tækifærið til að rétta aðeins úr sér, kaupa hressingu, og taka eldsneyti. Vísir/Vilhelm

Bensínstöð N1 í Staðarskála í Hrútafirði er án eldsneytis, vegna mannlegra mistaka hjá Olíudreifingu. Framkvæmdastjóri hjá N1 segir um klukkustund í að hægt verði að taka eldsneyti á stöðinni að nýju. 

Gera má ráð fyrir að fjöldi fólks sé á ferð um landið þetta föstudagseftirmiðdegið. Stór hluti þess fólks er líklega á leið til Akureyrar af höfuðborgarsvæðinu, en um helgina stendur N1 fyrir einu fjölsóttasta fótboltamóti sumarsins, N1-mótinu.  

„Það er um mannleg mistök að ræða hjá Olíudreifingu,“ segir Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Festi, móðurfélags N1. 

Hún segir að í ofanálag við mikil ferðalög séu afsláttardagar hjá N1, þar sem 30 króna afslátt er að fá af hverjum lítra. Olíudreifing hafi einfaldlega ekki gert ráð fyrir þeirri miklu eldsneytiseftirspurn sem skapaðist hjá viðskiptavinum Staðarskála í dag.

„Bíllinn er á leiðinni, og það er tæpur klukkutími í að við getum hafið bensínsölu aftur,“ segir Ásta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×