Erlent

Sá fyrsti sem kallar eftir því að Biden stígi til hliðar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Doggett vonaðist eftir betri frammistöðu Biden í kappræðunum í síðustu viku.
Doggett vonaðist eftir betri frammistöðu Biden í kappræðunum í síðustu viku. getty

Öldungadeildarþingmaðurinn Lloyd Doggett er fyrsti þingmaðurinn úr röðum Demókrata til þess að kalla eftir því að Joe Biden Bandaríkjaforseti stígi til hliðar og hætti við forsetaframboð.

Svo virðist sem að margir Demókratar hafi vaknað upp við vondan draum eftir frammistöðu Joe Biden í kappræðum í sjónvarpi í síðustu viku. Fjölmiðlar vestanhafs voru á sama máli um að Joe Biden beðið afhroð.

Ný könnun sem gerð var á meðal almennings í Bandaríkjunum bendir til þess að 72 prósent allra skráðra kjósenda telji að Joe Biden forseti hafi ekki vitsmunalega getu til þess að sinna embættinu.

Á meðan áhrifamenn innan Demókrataflokksins hafa ákveðið að styðja við bakið á Biden hefur Lloyd Doggett kallað eftir öðrum til þess að stíga upp. Hann kveðst hafa vonast eftir því að kappræðurnar myndu veita baráttu Biden og flokksins byr undir báða vængi. 

„Það gerðist ekki,“ segir Daggett. „Í stað þess að hughreysta kjósendur, mistókst forsetanum að verja mörg afrek hans og afhjúpa lygar Trump.“

Hann hvatti Biden því til þess að fylgja fordæmi fyrrverandi forseta Bandaríkjanna úr röðum Demókrata, Lyndon Johnson, og tilkynna um það að hann hefði ákveðið að afþakka tilnefningu flokksins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×