Körfubolti

James feðgarnir sam­einast í liði Los Angeles Lakers

Aron Guðmundsson skrifar
Feðgarnir Bronny og LeBron James saman hjá Los Angeles Lakers
Feðgarnir Bronny og LeBron James saman hjá Los Angeles Lakers Vísir/Samsett mynd

Feðgarnir LeBron James og Bronny James eru sameinaðir hjá NBA liðinu Los Angeles Lakers eftir að sá síðarnefndi var valinn af Lakers í annarri umferð nýliðavals NBA deildarinnar í kvöld.

Um söguleg tíðindi gæti verið að ræða ef aðeins er litið á þá staðreynd að aldrei áður hafa feðgar spilað með sama liðinu í leik í NBA deildinni. Það gæti breyst á næsta tímabili en með fimmtugasta og fimmta valrétt sínum valdi Los Angeles Lakers Bronny James í lið sitt. 

Bronny, nítján ára gamall, er elsti sonur LeBron James sem hefur skipað sér nafn sem einn allra besti körfuboltamaður sögunnar og hefur hann á sínum ferli fjórum sinnum orðið NBA meistari og fjórum sinnum verið valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar. 

Bronny ákvað að gefa kost á sér í nýliðaval NBA deildarinnar eftir aðeins eitt tímabil með liði USC háskólans þar sem að hann var að meðaltali með 4,8 stig í leik, 2,8 fráköst og 2,1 stoðsendingu og spilaði að meðaltali 19,4 mínútur í leik.

Bronny gekk til liðs við lið USC á miðju tímabili en þar áður hafði hann gengið í gegnum krefjandi tíma utanvallar eftir að hafa farið í hjartastopp. 

Samningur LeBron James við Los Angeles Lakers er að renna út og hefur hann til 29.júní næstkomandi til þess að virkja ákvæði í þeim samningi og halda inn í næsta tímabil með liðinu. Það yrðu nú að teljast tíðindi ef faðirinn myndi ekki virkja það ákvæði og kveðja liðið nú þegar að sonurinn er mættur. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×