Enski boltinn

Nist­el­rooy snýr aftur til Manchester United

Aron Guðmundsson skrifar
Ruud van Nistelrooy hefur verið að feta þjálfarastiginn eftir að skórnir fóru á hilluna. 
Ruud van Nistelrooy hefur verið að feta þjálfarastiginn eftir að skórnir fóru á hilluna.  EPA/VICTOR LERENA

Ruud van Nistelrooy hefur þegið boð um að verða aðstoðarþjálfari Erik ten Hag hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United.

Það er félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem að greinir frá þessu á samfélagsmiðlinum X í kvöld en auk Nistelrooy er René Hake, sem gegnt hefur stöðu þjálfara hollenska liðsins GO Ahead Eagles, einnig að ganga til liðs við þjálfarateymi Manchester United. 

Nistelrooy, stýrði PSV Eindhoven tímabilið 2022-23 og nældi í tvo titla en sagði svo upp störfum eftir tímabilið sökum samskiptaörðugleika. Á leikmannaferli sínum var hann leikmaður Manchester United um nokkurra ára skeið, skoraði 150 mörk fyrir félagið í 219 leikjum og varð Englandsmeistari með liðinu árið 2003, enskur bikarmeistari árið 2004 sem og enskur deildarbikarmeistari árið 2006.

Þá greinir Romano einnig frá því að Erik ten Hag sjálfur muni skrifa undir nýjan samning við Manchester United á næstu dögum. Búið sé að samþykkja öll atriði samningsins milli hans og félagsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×