Handbolti

Kiel reyndi að fá Aron aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Palmarsson er enn í miklum metum hjá Kiel.
Aron Palmarsson er enn í miklum metum hjá Kiel. getty/Juergen Schwarz

Íþróttastjóri Kiel staðfestir að félagið hafi rætt við Aron Pálmarsson um möguleikann á að snúa aftur á fornar slóðir.

Kiel olli vonbrigðum á síðasta tímabili og endaði í 4. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar. Það sætta menn þar á bæ sig ekki við og þeir leita nú leiða til að snúa genginu við.

Í samtali við Kieler Nachrichten játar Viktor Szilagyi, íþróttastjóri Kiel, að hann hafi rætt við Aron um möguleikann á að ganga aftur í raðir þýska félagsins. Kiel gerði þó ekkert tilboð í Aron. Handbolti.is greindi frá fyrstur íslenskra miðla.

Aron lék með Kiel á árunum 2009-15 undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. Á þeim tíma vann Kiel þýska meistaratitilinn fimm sinnum og Meistaradeild Evrópu í tvígang.

Aron, sem verður 34 ára í næsta mánuði, sneri aftur til FH síðasta sumar. Í vetur var hann fyrirliði liðsins sem varð Íslands- og deildarmeistari. Aron var valinn besti leikmaður úrslitakeppni Olís-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×