Innlent

And­rúms­loftið í ríkis­stjórninni hafi lagast eftir að Katrín hætti

Lovísa Arnardóttir skrifar
Bergþór Ólason, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Vilhjálmur Árnason gerðu upp þingárið og þinglokin í Sprengisandi í morgun.
Bergþór Ólason, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Vilhjálmur Árnason gerðu upp þingárið og þinglokin í Sprengisandi í morgun. Vísir/Vilhelm

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins segir Bjarna Benediktsson eiga mjög mikið undir við að halda ríkisstjórnarsamstarfinu gangandi fram yfir næsta vor. Það sé augljós djúpstæður ágreiningur innan þess en þau fái núna, við þinglok, nokkrar vikur til að jafna sig á því. Hann muni þó taka sig aftur upp þegar þing kemur aftur saman í ágúst.

„Þá er það sem ég óttast mest. Ég held að forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, eigi mjög mikið undir því að þetta flosni ekki upp strax í haust,“ segir Bergþór og bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn heldur sinn næsta landsfund í febrúar. Þar muni Bjarni sækja sitt umboð og til að tryggja það verði hann að halda ríkisstjórninni gangandi.

„Ég er hræddur um að það muni kosta mjög mikið,“ segir Bergþór sem gerði upp þingárið og þinglokin í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Með honum voru Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingkona Samfylkingarinnar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Árnason.

Bergþór segir að það verði áhugavert hvernig muni ganga í haust hjá ríkisstjórninni. Vinstri græn fái nýja forystu í október eftir landsfund sinn en það sé pólitískur ómöguleiki að Svandís, sem líklega taki við henni, sitji sem fagráðherra í aðdraganda næstu kosninga.

Vilhjálmur tók þá við og sagði þingveturinn hafa verið langan og strangan. Það hafi verið átök en á sama tíma hafi hann verið árangursríkur. Upplegg stjórnarandstöðu um ósætti í ríkisstjórn sé ekki það sem hann upplifi. Það sé öflugt og stemningin sjaldan verið betri. Flokkarnir haldi auðvitað í sín gildi og það hafi verið vitað frá upphafi að þessir þrír flokkar myndu þurfa að gera málamiðlanir í þessu samstarfi. Það hafi verið talinn styrkur hennar til að byrja með að geta það.

Náðu að klára stór mál

Vilhjálmur sagði þannig ríkisstjórninni hafa tekist að klára ýmis stór mál eins og útlendingalöggjöf annað árið í röð, örorkufrumvarp sem hafi verið í umræðu í áratugi og lögreglulög sem hafi lengi verið í umræðu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir segist geta tekið undir að það hafi verið kláruð góð mál, eins og örorkufrumvarpið. En það hafi verið breið samstaða um það mál, sem og önnur, eins og Mannréttindastofnun, á þinginu. Málin sem ekki fóru í gegn hafi ekki gert það vegna ágreinings við stjórnarandstöðu, heldur vegna ágreinings innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar.

Hún nefndir samgönguáætlun, lagareldi og raforkuleg. „Á endanum snýst svo allt um grásleppu. Það er það sem gerðist ígærkvöldi. Á endanum snýst pólitíkin á Íslandi um grásleppu og þá einhvern veginn hugsar maður hver er sýnin,“ segir Þórunn og að hún velti því fyrir sér hvernig ríkisstjórnin ætli að nýta það rúma ár sem hún á eftir við völd.

„Þegar samstarf í ríkisstjórn er orðið þannig að fólk hvorki heilsast né horfist í augu þá er bara gott að pakka saman. Erindið er búið og við skulum bara kjósa,“ segir Þórunn. Hún gagnrýnir einnig að stjórnarflokkarnir stöðvi sín eigin mál í nefndum þó svo að þau séu búin að málamiðla um þau í sínum þingflokkum. Það sé ekki eðlilegt vinnulag.

Hélt að þetta væri búið þegar Katrín hætti

Vilhjálmur segir að hann hafi ekki alltaf verið stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar en að hann sé það núna. Hann hafi samt haldið, sem dæmi, þegar Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, fór í forsetaframboð að samstarfinu lyki þá. Það hafi þó komið fljótt í ljós að flokkar í stjórnarandstöðu voru ekki tilbúnir í ríkisstjórnarsamstarf og því aðeins einn valmöguleiki í stöðunni. Að ljúka kjörtímabilinu með þeirri ríkisstjórn sem var til að geta klárað þau mál sem þau voru með í vinnslu. Við það tækifæri hafi málin verið rædd ítarlega og eftir það sé annar taktur hjá ríkisstjórninni.

„Það lagaðist andrúmsloftið og maður sá hver staðan var,“ segir Vilhjálmur.

Honum hafi ekki litist á að setja vaxtaákvarðanir Seðlabankans og kjarasamninga í uppnám með því að boða til nýrra kosninga. Sem er það sem stjórnarandstaðan var búin að sammælast um á þeim tíma.

„Ég held að þetta sé langöflugasta niðurstaðan í stöðunni eins og hún er,“ segir Vilhjálmur.

Linnulaus útgjöld

Bergþór brást við þessu og sagði ástæðu þess að Seðlabankinn eigi erfitt um vik með að lækka vexti séu verðbólguvæntingar í samfélaginu sem séu keyrðar, að miklu leyti, áfram af „linnulausum ríkisútgjöldum“ og vexti þeirra. Hann óttist að kostnaðurinn við það að halda ríkisstjórninni gangandi verði „endalaus kosningavíxlaútgjöld“ til að friða hvern flokk fyrir sig.

„Það er grafalvarleg staða,“ segir Bergþór og að heimilin í landinu muni að enda greiða fyrir það.

Þórunn segir að það sé erfitt að halda því fram að efnahagsmálin eða ríkisfjármálin myndu fara í uppnám við kosningar. Það sé engin stöðugleiki í þeim.

Þórunn gefur ekki mikið fyrir útskýringar Vilhjálms fyrir áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi og segir hann lýsa því sem einhvers konar nauð. Það hafi verið augljóst þegar Katrín hætti að ekki allir vildu Bjarna Benediktsson í færsætisráðherrastólinn.

Þremenningarnir ræddu einnig alþjóðastjórnmál, breytt pólitískt landslag á Íslandi, mannréttindamál og efnahagsmálin.


Tengdar fréttir

Lengsti þingfundurinn fimmtán klukkustundir

Þingi var frestað í nótt fram að hausti hafði þá verið að störfum frá 12. september til 16. desember 2023 og frá 22. janúar til 23. júní 2024. Í tilkynningu frá Alþingi kemur fram að alls hafi þingfundir verið 131 og að þeir hafi samtals staðið í rúmar 649 klst. Meðallengd þingfunda var fjórar klukkustundir og 55 mín. Lengsti þingfundur stóð í 15 klukkustundir og 43 mínútur.

Lilja Rafney segir sig úr VG vegna svika flokksins

Lilja Rafney Magnúsdóttir varaþingmaður Vinstri grænna hefur sagt sig úr flokknum. Það gerði Lilja Rafney eftir að samþykkt var á þingi frumvarp um kvótasetningu grásleppu. Í aðsendri grein segir Lilja Rafney að hún segi sig úr flokknum vegna svika hans við eigin sjávarútvegsstefnu.

Lagði til breytingar á ræðuhöldum á sautjánda júní

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands lagði til að forsetinn héldi ræðu á Austurvelli á þjóðhátíðardaginn í stað forsætisráðherra eins og tíðkast hefur. Þetta sagði hann þegar hann frestaði þingfundum 154. löggjafarþings á fyrsta tímanum í nótt. Fundum Alþingis verður fram haldið þann tíunda september. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×