Íslenski boltinn

Skaga­menn stigalausir á móti Blikum í meira en fimm ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson skoraði þrjú mörk í tveimur síðustu leikjum sínum á móti Skagamönnum en hann lék áður með ÍA.
Ísak Snær Þorvaldsson skoraði þrjú mörk í tveimur síðustu leikjum sínum á móti Skagamönnum en hann lék áður með ÍA. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik kemst í toppsæti Bestu deildar karla í fótbolta með sigri á Skagamönnum í kvöld. Blikar hafa gengið að þeim stigum visum síðustu ár.

Leikur Breiðabliks og ÍA hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Breiðablik hefur unnið alla deildarleiki félaganna undanfarin fimm ár eða alls sex leiki í röð með markatölunni 20-9.

Liðin mættust tvisvar sumarið 2022 en þá unnu Blikar báða leikina og skoruðu í þeim samtals átta mörk. Markahæstur Blika í leikjunum tveimur var Ísak Snær Þorvaldsson með þrjú mörk.

Skagamenn hafa ekki náð í stig út úr leik á móti Blikum síðan 19. maí 2019. Þá vann ÍA 1-0 sigur á Breiðabliki á Kópavogsvellinum. Sigurmarkið í leiknum skoraði Einar Logi Einarsson í uppbótatíma.

Tveir af síðustu þremur sigurleikjum Skagamanna á Blikum hafa einmitt komið í Kópavoginum því liðið vann einnig 1-0 sigur á Kópavogsvellinum 11. júlí 2016. Reyndar hafa síðustu fjórir sigurleikir Skagamanna á móti þeim grænu endað 1-0.

  • Síðustu sex leikir Breiðabliks og ÍA í efstu deild:
  • Ágúst 2022: Breiðablik vann 3-1 í Kópavogi
  • Maí 2022: Breiðablik vann 5-1 á Akranesi
  • Ágúst 2021: Breiðablik vann 2-1 í Kópavogi
  • Maí 2021: Breiðablik vann 3-2 á Akranesi
  • Nóvember 2020: Leik liðanna aflýst vegna Covid
  • Júlí 2020: Breiðablik vann 5-3 í Kópavogi
  • Ágúst 2019: Breiðablik vann 2-1 á Akranesi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×