Íslenski boltinn

Sjáðu HK skora sigur­mark frá miðju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
HK-ingar hafa unnið tvo leiki í röð og eru komnir upp í áttunda sæti.
HK-ingar hafa unnið tvo leiki í röð og eru komnir upp í áttunda sæti. Vísir/Hulda Margrét

HK vann dramatískan sigur á Stjörnunni í Bestu deild karla í gær en flestir héldu þó að Kópavogsliðið hefði kastað frá sér sigrinum.

HK vann leikinn 4-3 en Stjörnumenn höfðu náð að breyta stöðunni úr 3-1 fyrir HK í 3-3.

Þetta var heldur betur líflegur leikur enda komst Stjarnan yfir eftir aðeins 35 sekúndna leik.

HK svaraði með þremur mörkum og komst því í 3-1 og þannig var staðan eftir 85 mínútna leik. Stjörnumenn jöfnuðu hins vegar með tveimur mörkum á þremur mínútum undir lok leiksins.

HK-ingar héldu kannski að þeir væri búnir að henda frá sér sigrinum en þeir áttu lokaorðið.

Stjörnumenn voru reyndar með boltann og að reyna að sækja sigurmarkið þegar skelfileg sending úr vörninni rataði beint á HK-inginn Magnús Arnar Pétursson. Hann gaf hann strax á Atla Hrafn Andrason.

Atli Hrafn var staddur í miðjuhringnum en hikaði ekki í sekúndu heldur skaut bara þaðan og yfir Árna Snæ Ólafsson í markinu sem var kominn of framarlega.

Þetta mark rétt innan miðju reyndist vera sigurmark HK.

Mörk HK skoruðu auk Andra Hrafns þeir Arnþór Ari Atlason og Viktor Helgi Benediktsson. Eitt markanna var sjálfsmark. Emil Atlason skoraði tvö mörk fyrir Stjörnuna og Haukur Örn Brink var með eitt mark.

Hér fyrir neðan má sjá mörkin og dramatíkina úr Kórnum í gær.

Klippa: Mörkin úr leik HK og Stjörnunnar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×