Erlent

Þriggja saknað eftir aurskriðu í Ölpunum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mikið óveður hefur valdið miklum skaða víðs vegar um Sviss undanfarna daga.
Mikið óveður hefur valdið miklum skaða víðs vegar um Sviss undanfarna daga. AP/Samuel Keystone

Þriggja er saknað eftir að bálviðri og úrhelli olli aurskriðu í Alpadalnum Misox in Graubuenden í Sviss. Einni konu tókst að bjarga úr skriðunni en hinna þriggja er enn leitað.

Skriðan féll á húsaþyrpingu í Lostallo-héraði. Viðbragðsaðilar hafa verið við leit frá í morgun en skriðan féll snemma í morgunsárið á íslenskum tíma. Fréttaveita AP hefur eftir William Kloter í svissnesku lögreglunni að vonir séu bundnar við það að finna þau sem saknað er á lífi.

„Umfang skaðans sem óveðrið hefur valdið víðs vegar um landið er átakanlegt. Hugur minn er hjá þeim sem orðið hafa fyrir áhrifum af því. Ég þakka viðbragðsaðilum fyrir óbilandi vinnu þeirra í þessum erfiðu kringumstæðum,“ skrifar Viola Amherd, forseti Sviss, í færslu á samfélagsmiðlinum X.

Auk skriðunnar hefur óveðrið undanfarna daga gert það að ófært er á vinsæla ferðamannaáfangastaðinn Zermatt. Mattervispa-á flæddi yfir bakka sína vegna mikillar úrkomu og yfir alla greiða vegi til þorpsins.

Yfirvöld í Sviss hafa varað íbúa á hættusvæðum við að dvelja í kjallörum og brýnt til fólks að halda sig frá ám sem flæða yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×