Innlent

„Öll að­staða er til fyrir­myndar“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Frá tjaldsvæðinu í Þrastaskógi en rekstraraðili segir að svæðið muni opna 1. júlí.
Frá tjaldsvæðinu í Þrastaskógi en rekstraraðili segir að svæðið muni opna 1. júlí.

Rekstraraðili tjaldsvæðisins í Þrastaskógi segir að svæðið sé búið að vera lokað síðan í september á síðasta ári. Hann segir heilbrigðiseftirlitið hafa tekið svæðið út í vikunni og að það muni opna um mánaðamótin.

Vísir greindi frá því fyrr í kvöld að Heilbrigðisnefnd Suðurlands hefði fellt rekstrarleyfi tjaldsvæðisins í Þrastaskógi úr gildi vegna óviðunandi aðbúnaðar og umgengni. Kom þetta fram í fundargerð nefndarinnar frá 11. júní síðastliðnum.

Félag í eigu athafnamannsins Sverris Einars Eiríkssonar er rekstraraðili svæðisins og svaraði hann spurningum blaðamanns Vísis sem sendar voru í tölvupósti fyrr í kvöld. 

Í svari hans kemur fram að svæðið í Þrastaskógi sé búið að vera lokað síðan í september á síðasta ári en að það muni opna fyrir gesti þann 1. júlí næstkomandi. Þá hafi fyrri heimsókn heilbrigðiseftirlitsins verið gerð án hans vitundar og ekkert vatn né rafmagn á svæðinu þar sem það hafði verið lokað í lengri tíma.

„Búið er að hleypa á vatni og rafmagni, heilbrigðiseftirlitið tók út tjaldsvæðið i vikunni og öll aðstaða til fyrirmyndar,“ segir Sverrir í svari sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×