Þægi­legur portúgalskur sigur á Tyrkjum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Bruno Fernandes fékk mark á silfurfati frá Ronaldo í dag
Bruno Fernandes fékk mark á silfurfati frá Ronaldo í dag EPA-EFE/MIGUEL A. LOPES

Tyrkland og Portúgal unnu bæði fyrstu leiki sína á Evrópumótinu í Þýskalandi svo að sigur í dag myndi tryggja toppsætið í riðlinum.

Portúgalir komust yfir snemma leiks með góðu marki frá Bernando Silva á 21. mínútu. Markið alls ekki gegn gangi leiksins en þetta var þó fyrsta alvöru færi Portúgals í leiknum.

Skömmu síðar má segja að Tyrkir hafi hent leiknum frá sér þegar Samet Akaydin skoraði skrautlegt sjálfsmark. Hann ætlaði að leggja boltann aftur á Bayindir í markinu en sendi boltann þess í stað beinustu leið í netið.

Portúgal gerði svo út um leikinn á 56. mínútu þegar Ronaldo gerði vel að halda sér réttstæðum og hann og Bruno Fernandes komust einir í gegn. Ronaldo hefði getað klárað færið sjálfur en renndi boltanum í staðinn á Bruno sem skoraði í autt markið.

Ronaldo er þar með orðinn stoðsendingahæstur í sögu EM, sem hafði mögulega áhrif á þá ákvörðun hans að senda boltann í stað þess að skjóta sjálfur.

Undir lokin þurfti ítrekað að gera hlé á leiknum þar sem áhorfendur komust inn á völlinn en þeir voru allir með sama markmið, að ná sjálfu með Ronaldo. Hann lét þetta eðlilega fara í taugarnar á sér en gaf sér þó tíma í eitt skiptið til að gleðja ungan aðdáanda.

Með sigrinum tylla Portúgalir sér einir í efsta sæti F-riðils með sex stig. Þeir eiga einn leik eftir, gegn botnliði Georgíu á miðvikudaginn, og verður áhugavert að sjá hvort hinn 39 ára Ronaldo muni hvíla í þeim leik eða halda áfram að bæta öll þessi EM met sem hann á.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira