Innlent

Sig­mundur Davíð furðu lostinn yfir nýrri mannréttindastofnun

Jakob Bjarnar skrifar
Sigmundur Davíð telur furðu sæta að Sjálfstæðisflokkurinn (og Framsóknarflokkurinn ef hann snérist um eitthvað annað en sig sjálfan) skuli hafa samþykkt mannréttindastofnun Vinstri grænna.
Sigmundur Davíð telur furðu sæta að Sjálfstæðisflokkurinn (og Framsóknarflokkurinn ef hann snérist um eitthvað annað en sig sjálfan) skuli hafa samþykkt mannréttindastofnun Vinstri grænna. vísir/vilhelm

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins er furðu lostinn vegna mannréttindastofnunar sem samþykkt var í dag á þinginu að koma á koppinn.

Hvernig dettur Sjálfstæðisflokknum í hug, og Framsóknarflokknum ef hann væri ekki löngu farinn að samþykkja allt, að fallast á áform Vinstri grænna um enn eina mannréttindastofnunin, spyr Sigmundur Davíð dolfallinn.

„Stokkhólmsheilkennið virðist ekkert hafa minnkað þrátt fyrir að Katrín hyrfi á brott og VG færi í 3%. Sem fyrr snýst þetta allt um umbúðir. Þ.a. ef einhverjir gera athugasemd við stofnun sem heitir Mannréttindastofnun hljóti þeir að vera á móti mannréttindum. Heiti þingmála eru farin að skipta meira máli en innihaldið.“

Nóg af mannréttindastofnunum fyrir

Sigmundur Davíð spyr enn og hann spyr hvort enn ein slík stofnunin muni auka mannréttindi? En Íslendingar reka þegar Mannréttindaskrifstofu Íslands og nokkrar stofnanir eru á sviði mannréttinda sem hefðu hlaupið í þessi mál ef þurfa þykir.

„Á lokasprettinum var stofnunin réttlætt sérstaklega með því að hún muni standa vörð um réttindi fatlaðs fólks og gera okkur kleift að staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Raunin er sú að það hefði verið hægt að fullgilda samninginn fyrir löngu án þessarar nýju stofnunar. Auk þess hefði verið betra að hafa t.d. sérstakan umboðsmann fatlaðs fólks fremur en að nýta réttindagæslu þess hóps til að réttlæta allt annars konar stofnun.“

Og áfram spyr Sigmundur Davíð hvers konar mannréttindi þessi mannréttindastofnun muni verja?

„Mun þessi stofnun verja grundvallar mannréttindi eins og „sakleysi uns sekt er sönnuð”, „jafnræði fyrir lögum”, persónuréttindi, eignarrétt, málfrelsi og önnur borgaraleg réttindi eða mun hún fyrst og fremst snúast um hugðarefni nýja vinstrisins?“

Telur um að ræða atvinnubótavinnu fyrir Vinstri græn

Nei, Sigmundur Davíð telur það ekki líklegt heldur segir hann hinni nýju stofnun fyrst og fremst ætlað að skapa fleiri störf fyrir VG-liða utan Alþingis svo beita megi henni gegn öllum frumvörpum, þar með talið frá Sjálfstæðisflokki, sem ætlað er að ná til dæmis tökum á hælisleitendavandanum.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk „að klára eitt lítið útlendingamál, útþynnt í 4. eða 5. tilraun gegn því að fallast á nýja stofnun sem gæti beitt sér gegn slíkum frumvörpum í framtíðinni.“

Og Sigmundur Davíð er ekki búinn að gleyma hatursorðræðunámskeiðinu sem Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra hugðist koma á koppinn.

„Hafið líka í huga að stofnunin átti að koma til sögunnar sem liður í áformum ríkisstjórnarinnar um að setja alla landsmenn, 3-103 ára, á námskeið um hvernig þeim bæri að hugsa og tjá sig. Þetta stækkar að vísu báknið og fellur þannig að stefnu ríkisstjórnarinnar en ég spyr samt; Kemst ekkert annað að en umbúðir og yfirlýst markmið? Er borin von að menn ræði innihald og raunveruleg áhrif?“

Sigmundur Davíð er greinilega ekki hrifinn og spyr hvort næsta verkefni verði ekki það að fá nafni stofnunarinnar breytt í „Fólksréttindastofnun“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×