Samstarf

Tæknin tekur yfir leigu­bíla­markaðinn

Hopp leigubílar
Daníel Thors, rekstrarstjóri Hopp leigubíla, segir að miðað við viðtökurnar sem Hopp hafi fengið á sínu fyrsta starfsári hafi verið mikil eftirspurn eftir nýsköpun á leigubílamarkaði á Íslandi.
Daníel Thors, rekstrarstjóri Hopp leigubíla, segir að miðað við viðtökurnar sem Hopp hafi fengið á sínu fyrsta starfsári hafi verið mikil eftirspurn eftir nýsköpun á leigubílamarkaði á Íslandi.

Fyrir aðeins ári síðan hófu Hopp leigubílar starfsemi á Íslandi og hafa á þessum stutta tíma orðið áberandi á leigubílamarkaðnum. Með nýjungum og tækniþróun hefur fyrirtækið breytt því hvernig bæði bílstjórar og farþegar nýta sér leigubílaþjónustu.

„Leigubílamarkaðurinn hefur staðið í stað síðustu áratugi,“ segir Daníel Thors, rekstrarstjóri Hopp leigubíla. „En nú erum við loksins að bjóða upp á þjónustu sem er í takti við það sem býðst erlendis. Farþegar okkar vita alltaf hver keyrir bílinn, hvað er langt í hann og hvað ferðin kostar. Það er liðin tíð að vera t.d. á rauðu ljósi og horfa á mælinn tikka hærra og hærra með hnút í maganum. Núna klárar þú bara ferðina í rólegheitum, án þess að þurfa að taka upp veski eða síma, enda liggur verðið fyrir áður en bíllinn kemur að sækja þig.“

Með Hopp getur þú fylgst með staðsetningu bílsins í rauntíma. Það dregur úr óvissu um hvenær bíllinn mætir. „Muna ekki allir eftir því að húka úti í kuldanum og hafa enga hugmynd um hvenær bíllinn kæmi að sækja mann?,“ segir Daníel. „Núna getur þú nýtt tímann betur, jafnvel sett í vél eða spjallað aðeins lengur við vini þína á meðan þú bíður. Þegar fólk venst þessu er erfitt að fara til baka.“

Það er afar einfalt að bóka leigubíl með Hopp appinu.

Ekki hægt að svindla í Hopp-appinu

Öryggi, verðlagning og aðbúnaður leigubíla hefur verið mikið í umræðunni undanfarið, sérstaklega eftir að fréttir bárust af því að stór hópur bílstjóra, bæði reyndir og nýliðar, höfðu verið sektaðir í eftirlitsaðgerðum. Daníel fagnar hertum eftirlitsaðgerðum og segir að öryggi farþega hafi alltaf verið forgangsatriði hjá Hopp.

„Enginn getur keyrt í Hopp appinu nema vera með tilskilin leyfi frá Samgöngustofu og viðeigandi réttindi,“ segir Daníel. „Appið tryggir öflugt eftirlit með akstri bílstjóra því allar ferðir eru vistaðar í gagnagrunni Samgöngustofu og farþegar geta alltaf flett upp yfirliti yfir ferðir sínar. Það er engin leið að spila með verðið í leigubílum Hopp, þar sem það er reiknað út fyrirfram í appinu og hvorki farþegi né bílstjóri geta breytt því.“

Bæði leigubílstjórar og farþegar fá meira út úr þjónustunni

Tæknin í Hopp appinu er ekki bara góð fyrir notendur heldur einnig fyrir leigubílstjóra. Algengt er að leigubílar skutli fólki í úthverfi borgarinnar og keyri svo án farþega niður í bæ að sækja næsta hóp.

„Tómur leigubíll að fara aftur niður í bæ um helgar heyrir nú sögunni til,“ segir Daníel. „Appið veit alltaf hvert förinni er heitið og byrjar strax að leita að næstu ferð fyrir bílstjórann nálægt áfangastað hverrar ferðar. Þetta dregur úr óþarfa akstri, eykur hagkvæmni og minnkar útblástur. Svona lagað var ekki mögulegt hér áður. Tekjumöguleikar bílstjóra aukast líka þar sem þeir geta ekið fyrir aðrar stöðvar samhliða því að nýta sér þjónustu Hopp og fengið ferðir úr fleiri áttum.“

Báðir aðilar gefa stjörnur

Hjá Hopp gefa bæði leigubílstjórar og farþegar hvor öðrum stjörnur. Stjörnugjöfin er öflugt tól til að tryggja góða þjónustu og öryggi.

„Hver þekkir ekki að hafa lent í pínu súrri stemningu í leigubíl, þar sem er verið að tala um þrúgandi pólitík?,“ segir Daníel og hlær. „Stjörnugjöfin hjálpar til við að tryggja sem besta upplifun og öryggi fyrir báða aðila.“

Hopp leggur mikið upp úr því að hafa bókunarferlið eins einfalt og auðskilið og hægt er.

„Allir okkar ferðamátar eru aðgengilegir í Hopp-appinu. Þú velur leigubíla með einum takka í valmyndinni, setur inn einn áfangastað eða fleiri, velur hvaða týpu af bíl þú þarft og svo stillir þú nákvæma staðsetningu. Appið finnur næsta lausa bílstjóra og tengir við farþega,“ útskýrir Daníel. „Farþegar fá tilkynningar í rauntíma um staðsetningu bílsins og þegar bílstjórinn er kominn.“

Aukin notkun leigubíla á hagstæðari verðum

Daníel segir að miðað við viðtökurnar sem Hopp hefur fengið á sínu fyrsta starfsári hafi verið mikil eftirspurn eftir nýsköpun á leigubílamarkaði á Íslandi.

„Við höfum fengið frábærar viðtökur en það tekur tíma að breyta venjum fólks,“ segir Daníel. „Leigubílar hafa verið of dýr valkostur og það tekur tíma að fá fólk til að prófa nýja þjónustu. En þegar fólk byrjar að nota leigubíla Hopp, kemur það aftur og aftur. Það er augljóst að farþegar eru ánægðir.“

Hopp hefur frá upphafi sett sér það markmið að bjóða upp á góða þjónustu á betra verði en tíðkast hefur hingað til. Að mati Daníels hafa leigubílar verið of dýrir á Íslandi og þess vegna oft litið á þá sem síðasta valkost, frekar en venjulegan samgöngumáta.

„Við viljum fjölga leigubílaferðum almennt og gera þær að raunhæfum valkosti án þess að fólk þurfi að hafa áhyggjur af háum kostnaði. Þetta er áskorun en við erum að ná góðum árangri og það er markmið okkar að bjóða jafnt og þétt upp á hagstæðari verð og nýta tæknina betur við útreikning á kostnaði ferða miðað við eftirspurn og slíkt.“

Vilja læra af fenginni reynslu

Hopp leigubílar starfa nú á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjanesbæ og á Keflavíkurflugvelli. Það stendur þó til að bjóða upp á þjónustuna á sem flestum stöðum á landinu.

„Við viljum stækka þjónustusvæðið og ná til fleiri svæða, eins og Akureyrar. En fyrst erum við að einbeita okkur að því að byggja upp kjarnastarfsemina og læra af reynslunni,“ segir Daníel. „Við vinnum stöðugt að því að bæta appið og þjónustuna, svo við getum boðið upp á enn betri upplifun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×