Körfubolti

Skiptir um lið en ekki um heimavöll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sóllilja Bjarnadóttir er orðinn doktor frá Harvard og mun spila í Subway deildinni næsta vetur.
Sóllilja Bjarnadóttir er orðinn doktor frá Harvard og mun spila í Subway deildinni næsta vetur. Vísir/Vilhelm

Kvennalið Grindavíkur í körfuboltanum hefur fengið góðan liðstyrk fyrir næsta tímabil en bakvörðurinn Sóllilja Bjarnadóttir hefur nú samið við félagið.

Sóllilja, sem er 29 ára gömul, tók sér smá frí frá körfuboltanum á meðan hún vann að því að verða doktor. Hún stundaði nám við einn frægasta háskóla Bandaríkjanna. Nú ætlar hún aftur á fullt í körfuboltann.

Sóllilja Bjarnadóttir er uppalin í Breiðabliki en hefur einnig leikið með Stjörnunni, KR og Val og þá lék hún sem atvinnumaður í Svíþjóð eitt tímabil. Sóllilja á sex landsleiki með A-landsliði Íslands.

Sóllilja lagði skóna tímabundið á hilluna haustið 2022 rétt á meðan hún hóf nám við Harvard. Hún stundaði þar doktorsnám í umhverfisfélagsfræði. Hún tók skóna svo aftur fram með Blikum síðasta haust og lék með þeim fyrir áramót.

Það merkilega við þetta er að Sóllilja er að skipta um lið en ekki um heimavöll. Grindavíkurliðið spilar nefnilega heimavelli sína í Smáranum þar sem Sóllilja þekkir hvern krók og kima.

„Við erum mjög spennt að fá Sóllilju til liðs við okkur. Hún er reynslumikill leikmaður og bætir mikilli breidd og reynslu við okkar hóp sem mun nýtast okkur vel á komandi tímabili“ sagði Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, við miðla félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×