Körfubolti

Hlaðvarpsfélagi LeBrons nýr þjálfari LA Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
JJ Redick hefur starfað sem sérfræðingur hjá ESPN sjónvarpsstöðinni.
JJ Redick hefur starfað sem sérfræðingur hjá ESPN sjónvarpsstöðinni. Getty/Mitchell Leff/

JJ Redick hefur gert fjögurra ára samning um að þjálfa NBA lið Los Angeles Lakers en bandarískir fjölmiðlar greina frá þessu.

Redick hefur verið lengi orðaður við starfið en háskólaboltaþjálfarinn Dan Hurley hafnaði tilboði Lakers í síðustu viku.

Þetta er fyrsta þjálfarastarf Redick sem spilaði sjálfur í fimmtán ár í deildinni. Hann hefur hvorki verið þjálfari ná aðstoðarþjálfari áður.

Redick er 39 ára gamall en hann lagði skóna á hilluna árið 2021. Hann var nú síðast körfuboltasérfræðingur hjá ESPN auk þess að vera hlaðvarpsfélagi LeBrons James.

Samningur James við Lakers er runninn út og ekki vitað hvar hann spilar á næstu leiktíð þótt að líklegast verði það hjá Los Angeles liðinu. Það er þó ljóst að mörg félög vilja fá stigahæsta leikmann NBA sögunnar.

James og Redick þekkjast vel en James var á öðru ári sínu í deildinni þegar Redick kom inn sem nýliði í NBA. LeBron heldur upp á fertugsafmælið í desember en hann ætlar að spila áfram í NBA.

Meðal annara þjálfara sem hafa tekið við liði í NBA án þess að hafa nokkra þjálfarareynslu eru Jason Kidd (Nets 2013-14), Mark Jackson (Warriors 2011-12), Doc Rivers (Magic 1999-2000) og Larry Bird (Pacers 1997-98).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×