Sport

Pálmi stýrir KR að öllum líkindum út tíma­bilið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gregg Ryder og Pálmi Rafn Pálmason í leik með KR í sumar. 
Gregg Ryder og Pálmi Rafn Pálmason í leik með KR í sumar.  Vísir/Anton Brink

„Þetta var í rauninni ákvörðun stjórnar knattspyrnudeildar KR í gær, að segja honum upp,“ segir Páll Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar í samtali við Vísi.

KR ákvað í gær að segja upp Gregg Ryder sem þjálfara liðsins. Ryder tók við KR fyrir tímabilið en liðið er nú í 8. sæti deildarinnar með 11 stig. Liðið hefur unnið þrjá leiki á tímabilinu og komu fyrstu tveir sigrarnir í fyrstu tveimur umferðunum.

„Gengi liðsins er vonbrigði, árangurinn er undir pari að við teljum og það hefur verið trendið undanfarið að það er fátt jákvætt hægt að taka út úr einstaka leikjum. Og það var ekkert sem benti til þess, að okkar mati, að þetta væri að fara snúast við. Við töldum því þetta eina möguleikann til að hægt væri að snúa þessu við. Því miður er það yfirleitt þjálfarinn sem fær að taka pokann sinn, ekki heilt lið.“

Óskar hefur ekki áhuga á starfinu að svo stöddu

Pálmi Rafn Pálmason mun stýra liðinu í næsta leik, gegn Víkingum á laugardaginn.

„Liðið er í góðum höndum hjá Pálma og við erum með mikinn mannauð innan félagsins af þjálfurum sem verða mönnum innan handar. Pálmi stýrir liðinu á laugardaginn og að öllum líkindum út tímabilið,“ segir Páll en félagið hefur ekki opnað neinar viðræður við annan þjálfara.

Óskar Hrafn Þorvaldsson var á dögunum ráðinn til KR sem ráðgjafi. Hann mun ekki taka við þjálfum meistaraflokks að svo stöddu.

„Það var alveg skýrt frá byrjun að Óskar væri ekki að fara taka að sér starf þjálfara meistaraflokks KR. Honum var því ekki boðið starfið í ljósi þess að hann hefur ekki áhuga á starfinu sem slíku. Auðvitað er Óskar frábær þjálfari og margir KR-ingar sem vilja sjá hann í þessu starfi en hann hefur alveg verið skýr í sinni afstöðu að hann muni ekki þjálfa meistaraflokk eins og sakir standa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×