Serbar jöfnuðu á ögur­stundu og héldu vonum sínum á lífi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Luka Jovic #8 tókst að stýra skallanum í netið þrátt fyrir þokkalegt tog frá markaskorara Slóveníu, Zan Karnicnik #2.
Luka Jovic #8 tókst að stýra skallanum í netið þrátt fyrir þokkalegt tog frá markaskorara Slóveníu, Zan Karnicnik #2. Carl Recine/Getty Images

Serbía sótti 1-1 jafntefli á fimmtu mínútu uppbótartíma í leik gegn Slóvakíu. Sterkt stig sem heldur vonum Serbanna um að komast áfram í 16-liða úrslit á lífi. 

Leikurinn var fjörugur frá upphafi og Slóvenar byrjuðu betur gegn hálf sofandi Serbum. Sem betur fer fyrir Serba var markvörðurinn Predrag Rajkovic þó vel vakandi og átti tvær góðar vörslur á fyrstu mínútunum.

Serbar unnu sig betur inn í hlutina eftir um hálftíma leik og meira jafnræði varð milli liðanna. Dusan Vlahovic komst nálægt því að taka forystuna fyrir Serbíu rétt fyrir hálfleik en Jan Oblak varði skot hans af stuttu færi.

Seinni hálfleikur var jafn fjörugur og sá fyrri. Opinn í báða enda en Serbar með yfirhöndina fyrst um sinn.

Zan Karnicnik skoraði fyrsta mark leiksins.Carl Recine/Getty Images

Serbarnir komu af krafti út úr búningsherbergjunum eftir slaka byrjun á leiknum og áttu þrjú mjög fín færi en það var Slóvenía sem tók forystuna á 69. mínútu.

Miðjumaðurinn Timi Elsnik gaf góða fyrirgjöf á hægri bakvörðinn Zan Karnicnik sem kom keyrandi upp hægri kantinn og kláraði færið af öryggi.

Serbar skiptu ekkert um gír eftir að hafa lent undir og voru áfram ógnvænlegir. Aleksandar Mitrovic átti skot í stöng og fleiri góð færi féllu fyrir Serbana en boltinn virtist ekki vilja inn.

Allt þar til á ögurstundu, lokamínútu uppbótartíma, þegar Serbar fengu hornspyrnu. Örvæntingin var orðin algjör og markmaður liðsins meira að segja settur í boxið.

Ivan Ilic tók spyrnuna, fastur bolti á miðjan teiginn sem lenti á hárréttum stað, akkúrat á enni Luka Jovic sem stýrði boltanum í netið.

Serbarnir hæstánægðir með stigið en Slóvenar afskaplega ósáttir með jafnteflið eftir að hafa staðist stórskotahríð nær allan seinni hálfleik.

Slóvenía er nú með tvö stig og Serbía eitt stig í C-riðli, líkt og Danmörk sem mætir efsta liðinu, Englandi, síðar í dag. Efstu tvö liðin fara upp, fjögur af sex bestu 3. sætunum sömuleiðis. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira