Handbolti

„Held ég sé að verða betri þjálfari með hverju árinu sem líður“

Aron Guðmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson hefur afrekað frábæra hluti með lið Fredericia.
Guðmundur Guðmundsson hefur afrekað frábæra hluti með lið Fredericia. Mynd: Fredericia

Eftir frá­bært tíma­bil og silfur­verð­laun hefur Guð­mundur Guð­munds­son fram­lengt samning sinn hjá danska úr­vals­deildar­fé­laginu Fredericia í hand­bolta. Á­kvörðun sem var honum ekki erfið því gengið hefur af­burða vel hjá liðinu undir hans stjórn. Guð­mundur segist hvergi nærri hættur.

„Þetta hefur verið al­gjört ævin­týri satt best að segja,“ segir Guð­mundur um tímann til þessa hjá Fredericia. „Með þeim skemmti­legri verk­efnum sem ég hef tekið þátt í á mínum ferli. Þetta byrjaði nú allt saman í fyrra. Þá náum við besta árangri fé­lagsins í fjöru­tíu og þrjú ár þegar að við vinnum til brons­verð­launa í dönsku deildinni.

Það sem að gerist svo núna á ný­af­stöðnu tíma­bili er að við komumst í fyrsta skipti í sögu fé­lagsins alla leið í úr­slita­keppni (e.final four) í danska bikarnum. Það er mjög stór við­burður úti í Dan­mörku. Tíu þúsund á­horf­endur á leikjunum og ó­trú­leg stemning. Þar vorum við ná­lægt því að komast í úr­slit en töpuðum í fram­lengdum leik gegn GOG. Það var mjög stórt skref upp á við fyrir fé­lagið.“

Svo tryggjum við okkur annað sæti í deildar­keppninni. Sem er satt best að segja frá­bær árangur með það að leiðar­ljósi að við erum að keppa við lið eins og GOG, Bjerring­bro-Sil­ke­borg, Skjern og fleiri lið. Náum því og þar með tryggjum við okkur sæti í Evrópu­keppni. Mögu­lega inn í Meistara­deildina. Svo tökum við enn eitt skrefið í úr­slita­keppninni og komumst þar alla leið í úr­slita­ein­vígið gegn Ála­borg þar sem að við töpum mjög naum­lega.“

Í raun mætti segja að Guð­mundur og hans læri­sveinar hafi að­eins verið tveimur mörkum frá danska meistara­titlinum þar sem að odda­leikurinn gegn Ála­borg í úr­slitunum tapaðist að­eins með einu marki.

„Við höfum náð að búa til af­burða sterkt lið. Það eru engar stór­stjörnur hjá okkur, en margar stjörnur. Þetta miklu meira bara unnið á sam­heldnum hópi. Við erum vel skipu­lagðir. Spilum góða vörn. Erum grimmir í hraða­upp­hlaupum og með góða mark­vörslu. Náum mikið út úr liðinu okkar. Mark­miðið þegar að ég kem inn var að fara keppa um að vinna til verð­launa árið 2025. Við erum langt á undan á­ætlun með það. Vinnum til verð­launa í fyrra og aftur núna. Erum mjög ná­lægt þessu.“

Fredericia hefur verið að ná góðum árangri undir stjórn Guðmundar Mynd: Fredericia Handbold

„Þetta hefur verið ævin­týri líkast. Við erum að fá ó­trú­legt á­horf á þetta lið. Leikir okkar voru sýndir í beinni út­sendingu tuttugu og sex sinnum á ný­af­stöðnu tíma­bili. Þá fylgdust tæp­lega sjö hundruð þúsund manns með þremur leikjum okkar gegn Ála­borg í úr­slitunum sem dæmi. Á­huginn á hand­bolta í Dan­mörku er gríðar­legur.

Þá er mikil stemning í bæjar­fé­laginu okkar. Í rauninni allt á hvolfi og fólk hefur hrifist af okkur sem eins konar litlu liði. Sér í lagi gegn ofur­liði Ála­borgar sem að fór jú alla leið í úr­slita­leik Meistara­deildarinnar. Stundum erum við Davíð á móti Golíat. Þetta hefur verið mjög við­burða­ríkur og á­nægju­legur tími.“

Frá leik Fredericia á síðasta tímabiliMynd: Fredericia Handbold

FOg Guð­mundur segist geta tekið undir það að árangurinn sé um­fram hans væntingar.

„Ég verð að svara því játandi. Síðan að ég kom hingað hef ég alltaf unnið með há­leit mark­mið fyrir liðið. Ef að ein­hver hefði sagt við mig að síðasta tíma­bil myndi enda svona hjá okkur þá jú myndi ég alveg hafa trú á því en ég verð bara að segja að þetta fór fram úr á­kveðnum væntingum mínum.“

Og fyrir nokkrum dögum síðan fram­lengdi Guð­mundur samning sinn við Fredericia út tíma­bilið 2027.

Það hefur ekki verið erfið á­kvörðun eða hvað?

„Nei í raun ekki. Mér hefur fundist mjög gott að starfa þarna og finn fyrir miklu trausti og virðingu. Það er á­nægju­legt að finna for­ráða­menn fé­lagsins sækjast eftir því snemma að fram­lengja samning minn. Ég átti eftir eitt ár af þá­verandi samningi mínum en núna er verið að fram­lengja við mig tíman­lega. Ég hlakka til að takast á við að byggja þetta lið upp og gera það enn betra. Við höfum sett stefnuna á að verða eitt af fjórum bestu liðum Dan­merkur, stimpla okkur þar inn. Það er ekki ein­falt að halda því. 

Inn í þetta blandast þátt­taka okkar í Evrópu­keppni á næsta tíma­bili, annað hvort í Evrópu- eða Meistara­deildinni. Það mun reyna á liðið og getur haft á­hrif á gengi okkar í dönsku deildinni en við erum mjög fullir til­hlökkunar að takast á við þau verk­efni með þetta lið. Heima­völlur okkar er stór­kost­legur, stuðnings­menn okkar frá­bærir. Stemningin hjá okkur er ein­stök og heima­völlurinn erfiður heim að sækja fyrir and­stæðinga okkar. Það er ekki auð­velt að mæta okkur þarna. Við höfum verið mjög sterkir á heima­velli en höfum einnig bætt okkur á úti­völlum. Þú værir ekki í öðru sæti í deildinni nema að hafa verið að spila mjög vel bæði heima og að heiman.“

Heimavöllur Fredericia er mikið vígi og þar myndast góð stemningMynd: Fredericia Handbold

Sjálfur hefur Guðmundur sjaldan verið eins ferskur þegar kemur að þjálfarastarfinu. 

„Ég er mjög metnaðarfullur. Hef þessa ástríðu enn þá og er alltaf að bæta við mig. Ég held ég sé að verða betri þjálfari með hverju árinu sem líður. Svo einhvern tímann lýkur þessu en það er ekki komið að því enn þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×