Erlent

Boð­orðin tíu upp á vegg í öllum skóla­stofum í Louisiana

Lovísa Arnardóttir skrifar
Boðorðin tíu úr Biblíunni.
Boðorðin tíu úr Biblíunni. Vísir/Getty

Boðorðin tíu verða að vera til sýnis í öllum kennslustofum í opinberum skólum í Louisiana ríki í Bandaríkjunum. Það er allt frá leikskólum og til háskóla. Ríkisstjóri Louisiana, Jeff Landry, staðfesti lög þess efnis í dag.

Louisiana er fyrsta ríkið í Bandaríkjunum sem gerir þessa kröfu. Samkvæmt lögunum eiga boðorðin tíu að vera á plakati og á letrið að vera stórt og auðlesið. Flutningsmenn setja tilgang laganna ekki aðeins trúarlegan heldur einnig sögulegan. Í lagatextanum segir að boðorðin tíu séu grunnskjal í Bandaríkjunum og hjá ríkisstjórninni.

Með boðorðunum á plakatinu á að fylgja fjögurra málsgreina yfirlýsing sem lýsir því hversu stóru hlutverki boðorðin gegni í bandarísku menntakerfi og hafi gert það síðustu þrjá áratugina. Samkvæmt lögunum verður plakatið að vera komið upp á vegg í öllum skólastofum á næsta ári.

Greiða á fyrir plakötin með framlögum. Framlög ríkisins verða ekki nýtt í innleiðingu. Lögin heimila einnig, en krefjast ekki, sýningu Mayflower-sáttmálans, sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna og Northwest reglugerðina.

Fram kemur í frétt AP um málið að andstæðingar laganna eigi von á því að lögin verði kærð til dómstóla. Samtök sem vilja halda trúmálum utan kennslustofunnar lýstu því yfir strax við undirritun laganna að þau ætluðu að fara með málið fyrir dómstóla.

Í yfirlýsingu frá ýmsum mannréttindsamtökum í dag eins og the American Civil Liberties Union, Americans United for Separation of Church og State and the Freedom from Religion Foundation kom fram að með innleiðingu laganna myndu ekki öll börn verða örugg í skólakerfinu og ekki vera jafnrétti.

Þá kemur einnig fram í frétt AP að svipuð frumvörp hafi verið lögð fram í öðrum ríkjum í Bandaríkjunum en engum hafi tekist að fá þau samþykkt. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur áður úrskurðað um svipuð lög sem samþykkt voru í Kentucky. Dómstóllinn úrskurðaði í því máli árið 1980.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×