Skoðun

Neyðar­kall!!! Fleiri hjúkrunar­rými strax!

Jónína Björk Óskarsdóttir skrifar

Ísland stendur frammi fyrir vaxandi áskorun varðandi öldrunarþjónustu vegna hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar. Hundruðir aldraðra bíða eftir hjúkrunarrýmum og tugir þeirra dvelja á bráðadeildum sjúkrahúsa í bið eftir plássi. Þetta ástand skapar óþarfa þjáningar fyrir aldraða og fjölskyldur þeirra, auk þess sem ástandið skapar aukið álag á heilbrigðiskerfið.

Stjórnvöld verða að bregðast við vandanum af festu. Úttektir heilbrigðisráðuneytisins sýna skýrt fram á þörfina fyrir fleiri hjúkrunarrými, en hingað til hefur skort raunverulegan pólitískan vilja til að mæta skortinum. Loforð um eflingu heimahjúkrunar hafa ekki gengið eftir og ein og sér mun heimahjúkrun aldrei geta leyst vandann, sérstaklega þar sem fjöldi mjög aldraðra einstaklinga mun stóraukast á komandi árum.

Lausnin felst í markvissu átaki til uppbyggingar hjúkrunarrýma. Til lengri tíma litið er fjárfesting í öldrunarþjónustu ekki aðeins siðferðileg nauðsyn heldur einnig skynsamleg hagfræðilega séð, þar sem hún dregur úr kostnaði og álagi á aðra þætti heilbrigðiskerfisins. Aðgerðaleysi mun á hinn bóginn leiða til sívaxandi vandamála.

Núverandi áform um flutning aldraðra langt frá heimahögum og aðstandendum, sýna hversu alvarlegur skorturinn á hjúkrunarrýmum er orðinn. Slíkar neyðarráðstafanir ættu ekki að líðast í velferðarsamfélagi. Ríkisstjórnin hefur haft tæp 7 ár til að grípa til aðgerða í málaflokknum en þrátt fyrir það hefur lítið sem ekkert verið byggt af nýjum hjúkrunarheimilum á hennar vakt. Við verðum að forgangsraða málefnum aldraðra og tryggja öllum öldruðum einstaklingum aðgang að þeirri umönnun sem þeir þurfa. Tíminn til að bregðast við er núna. því fyrr sem við hefjumst handa, því betra.

Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins.




Skoðun

Sjá meira


×