Veður

Allt að tuttugu gráðu hiti sunnan heiða á morgun

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Blíðviðri er spáð fyrir sunnan á morgun. Myndin er af Flúðum.
Blíðviðri er spáð fyrir sunnan á morgun. Myndin er af Flúðum. Vísir/Vilhelm

Hitinn gæti náð allt að átján stigum í dag og spáð er bjartviðri um mest allt land. Vindáttin verður breytileg og vindhraði milli þriggja og tíu metra á sekúndu. Hlýjast verður inn til landsins.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Skýjað verður á vestanverðu landinu og sums staðar þokuloft við norður- og austurströndina.

Þegar líður á daginn gæti gosmóða látið á sér kræla á suðvesturhorninu og mælt er með því að fylgjast með loftgæðum á loftgaedi.is.

Á morgun verður norðlæg eða breytileg átt og vindhraði milli þriggja og átta metra á sekúndu. Skýjað verður norðanlands og áfram líkur á þoku við sjóinn fyrir norðan og austan. Léttskýjað verður þó sunnan heiða og gæti hitinn náð allt að tuttugu stigum suðvestantil. Þó eru líkur á stöku síðdegisskúrum.

Á sunnudag verður svo áfram norðlæg eða breytileg átt og skýjað að mestu. Þá verður einnig lítilsháttar væta á víð og dreif en bjart að mestu sunnanlands. Hlýjast verður syðst á landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×